Karl G. Krist­ins­son, yf­ir­lækn­ir á sýkla- og veiru­fræðideild Land­spít­al­ans, segir mikið álag á deildinni um helgar vegna PCR-sýna ferðamanna og Íslendinga sem snúa aftur heim úr ferðalögum erlendis.

„Ef mikil aukning verður á komu ferðamanna til landsins ásamt hækkandi smitum gætum við lent í vandræðum,“ segir Karl í samtali við Fréttablaðið.

Í fyrra voru nánast eingöngu Íslendingar á ferð um landið en með tilslökunum og opnun landamæra í ár hafa Covid-þreyttir ferðamenn sótt Ísland í auknum mæli.

Í september komu 108 þúsund ferðamenn til landsins og telur Ferðamálastofa að svipaður fjöldi verði nú í október. Jakob Rolfsson, forstöðumaður á rannsókna- og tölfræðisviði Ferðamálastofu, reiknar með að í lok árs muni 700 þúsund ferðamenn hafa sótt landið heim.

PCR-próf ferðamanna stór hluti af prófunum

Nýjar reglur tóku gildi þann 1. október um að farþegar með tengsl við Ísland þurfi ekki að fara í próf erlendis en þurfa að sæta sýnatöku við komuna til landsins, hvort sem þeir eru bólusettir eða ekki. Óbólusettir farþegar þurfa sem fyrr að sýnatöku lokinni að sæta fimm daga sóttkví og fara í PCR próf við lok sóttkvíar.

„Ástæðan er að mikill fjöldi ferðamanna og einstaklinga með tengingu við Ísland kemur til landsins og þarf að fara í PCR próf í Keflavík. Á sama tíma eru stór hópur á leið út úr landi og þarf að mæta í PCR-próf á Suðurlandsbrautinni. Þetta er að verða ansi stór hluti af okkar prófunum,“ segir Karl.

Breytingar og endurbætur voru gerðar á sýkla- og veirufræðideildinni vegna nýs tækjabúnaðar.
Frettablaðið / Sigtryggur Ari

Greiningartækin undir miklu álagi

Aðspurður segir Karl ekki nauðsynlegt að ráða inn fleiri starfsmenn en að greiningartækin séu undir miklu álagi. Þau keyra á fullu alla daga og aðeins einn starfsmaður hefur fengið leyfi og þjálfun frá umboðsaðila til að sjá um viðhald. Bilanir hafa komið upp öðru hvoru en sem betur fer hafa þær ekki verið stórvægilegar.

„Þetta hefur gengið vel til þessa en við vonum að þróunin haldi ekki áfram upp á við.“

Greiningartækin voru tímamót í báráttunni við COVID-19 og bylting fyrir deildina. Deildin þurfti í byrjun faraldursins að láta gömul og úrelt tæki duga og þurfti faraldur til að uppfæra rannsóknarstofuna.

Fyrra veirugreiningartækið kom til landsins síðastliðinn desember en vegna stærðar tækisins þurfti að flytja það inn með rússneskri flugvél sem er notuð til herflutninga. Það var tekið notkun í byrjun árs og annað tækið var svo tekið í notkun í vor. Karl segir að þegar tækin eru í góðu lagi er deildin í góðum málum.

„Ég veit ekki hvernig við hefðum farið að hefðum við ekki haft þessi tæki en eins og með öll tæki þarf að gera við þau og viðhalda þeim, sérstaklega þegar það er svona mikið álag á þeim.“