Um þúsund komufarþegar eru bókaðir í þeim flugvélum sem væntanlegar eru til landsins á morgun og útlit er fyrir að flöskuháls myndist við greiningu PRC-prófa. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins mun Landspítalinn ekki að óbreyttu anna þeim mikla fjölda greininga sem gera þarf miðað við væntanlegan fjölda ferðamanna.

„Aukning í straumi ferðamanna er hraðari en gert var ráð fyrir í þeim spám sem við vorum búin að fá í hendurnar,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn almannavarna. Unnið er að greiningu á því hvernig bregðast megi við þá daga sem mest álag verður á landamærum í sumar.

„Það eru mjög margir áætlaðir á laugardaginn. Þetta er sá dagur sem hvað flestir hafa verið bókaðir hingað til. Við eigum eftir að sjá hve margir skila sér, þannig að það á eftir að koma í ljós hvað þarf að taka mörg sýni,“ segir Víðir og bætir við: „Það er alveg viðbúið að það komi dagar þar sem við förum alveg að efstu mörkum þess sem kerfið þolir.“

Aðspurður um áhrif tafar á greiningu sýna segir Víðir að tíminn sem fólk þurfi að bíða í sóttkví geti lengst. „Það er það sem fylgir því þegar koma svona toppar í komum til landsins að tíminn sem líður frá því þú kemur til landsins og þangað til þú færð niðurstöðu getur orðið langur.“

Víðir segist þó ekki eiga von á að biðin verði lengri en 24 tímar. Á stærstu dögunum færist þau sýni sem ekki klárast samdægurs yfir á næsta dag. Sem dæmi sé sunnudagurinn rólegri en morgundagurinn.

Unnið er að næmisgreiningu um hvaða þætti þarf að endurskipuleggja og vinna með öðrum hætti en gert er í dag, til að bregðast við þessum aukna fjölda. „Við erum að skoða heildarmyndina; prófin, hvernig þau verða framkvæmd, hvort við hættum að prófa þá sem eru bólusettir, eða prófum þá með öðrum hætti, sýnatökugetuna, yfirferð yfir vottorðin og traffíkina á flugvellinum,“ segir Víðir.

Ljúka á þessari vinnu um helgina þannig að fyrir liggi strax eftir helgi hvaða daga sumarsins þurfi að bregðast við með einhverjum hætti.

„Þegar þú ert með svona flókið kerfi eins og á landamærunum er þetta ekki eitthvað sem þú breytir á einum degi. Sumt tekur sjö til fjórtán daga að breyta og fara í gegn,“ segir Víðir. Markmiðið sé að setja niður einhverjar vörður þar sem gera þurfi ráðstafanir á grundvelli bjartsýnustu spáa um komu ferðamanna. „Það er þá búið að gera það þegar þar að kemur.“