Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, biðlar til allra hér á landi um að kynna sér vel tvær nýjar aug­lýsingar sem gefnar hafa verið út af heil­brigðis­ráðu­neytinu þar sem finna má upp­lýsingar um þær tak­markanir sem í gildi verða frá 4. maí. Þetta er meðal þess sem fram kom á blaða­manna­fundi al­manna­varna í dag.

Þór­ólfur tekur fram að verið sé að vinna frekara kynningar­efni vegna aug­lýsinganna, meðal annars spurningar um það helsta.

„Í fyrsta lagi var gefin út aug­lýsing í gær um af­léttingu sam­fé­lags­legra að­gerða og eins og kemur fram í aug­lýsingunni snýr af­léttingin einkum að börnum á leik-og gurn­n­skóla­aldri. Það má segja að það séu engar tak­markanir á þessum hópum nema al­mennt hrein­læti,“ segir Þór­ólfur.

Hvað full­orðna varðar sé einkum verið að af­létta­tak­mörkunum á starf­semi svo­kallaðra ein­yrkja. Það sé talið upp í aug­lýsingunni.

„Þessi skref í af­léttingunni eru mjög mikil­væg og sér­stak­lega þegar kemur að börnum því eins og við höfum rakið áður er smit hjá börnum mjög fá­títt og í smitrakningunni hér kemur fram að smit frá börnum í full­orðinna eru ekki þekkt hér,“ segir Þór­ólfur og bendir á að það hafi verið öfugt.

Biður fólk um að hugsa sig vel um áður en það sækir um undan­þágur

„Ég vil sér­stak­lega biðja aðila um að kynna sér þetta vel því við erum að fá mörg­hundruð pósta á dag og greini­legt að fólk er ekki að lesa aug­lýsingarnar og vill ég biðja til aðila um að kynna sér þetta vel áður en póstur er sendur því við verðum að af­létta þessum þunga sem hefur orðið.“

Þá var auk þess aug­lýsing birt á vef heil­brigðis­ráðu­neytisins í dag vegna hamla á ferða­menn og munu þær taka gildi nú á föstu­dag og verða í gildi til 15. maí.

„Inni­hald þeirrar aug­lýsingar er jú þær að sömu kröfur um sótt­kví verða gerða fyrir út­lendinga og Ís­lendinga. Fjór­tán daga sótt­kví og þessar ráð­stafanir munu gilda til 15. maí þegar þetta verður endur­skoðað,“ segir Þór­ólfur.

„Það verður hægt að sækja um undan­þágur til land­læknis en ég bið alla um að hugsa sig vel um áður en sótt er um slíka undan­þágu,“ segir Þór­ólfur. Mikil­vægt sé að hindra að veiran komi aftur til landsins.