Samkvæmt skýrslu sem birt var fyrir mistök af Atlantshafbandalaginu eru 150 bandarísk kjarnavopn geymd í sex borgum í Evrópu. Kanadíski öldungaþingmaðurinn Joseph Day, höfundur skýrslunnar, segir umrædda skýrslu aðeins hafa verið uppkast.

Skýrslan fjallar um nútímavæðingu kjarnavopna Atlantshafsbandalagsins og hömlur slíkra vopna en hún kom út síðastliðinn apríl.

Átti ekki að birtast opinberlega

Belgíska dagblaðið De Morgen birti í síðustu viku hluta skýrslunnar sem fjallaði um kjarnavopnabúr bandalagsins í Evrópu. Í þeim hluta koma fram að kjarnavopn væru geymd á sex herstöðvum í Evrópu sem staðsettar eru í Belgíu, Þýskalandi, Hollandi, Tyrklandi og á tveimur stöðum á Ítalíu. Þegar skýrslan var birt á netinu var búið að fjarlægja umræddan kafla skýrslunnar.

Skýrslan var unnin fyrir varnar- og öryggismálanefnd Atlantshafbandalagsins af öldungaþingmanninum Joseph Day. Hann segir útgáfuna sem belgíska dagblaðið vísar í aðeins hafa verið uppkast og að upplýsingar hennar hafi áður verið aðgengilegar almenningi.

Staðsetning kjarnavopna aldrei verið birt áður

Deilt er um meðal embættismanna bandalagsins hvort um opinbert málefni sé að ræða en bandalagið hefur aldrei áður gefið upp staðsetningu kjarnavopna í Evrópu.

Fjölmiðlar og almenningur telja þó upp til hópa að þessi mistök hafi staðfest það opinbera leyndarmál að bandarísk kjarnavopn séu geymd í Evrópu.