Ferðamaður, sem greindist með jákvætt smit í fyrradag, hafði ekki greinst með veiruna við landamæraskimun nokkrum dögum fyrr. Hann var á ferð um Norðurland eystra og er nú kominn í einangrun.

Alls eru fjórir í einangrun í þeim landshluta og 66 í sóttkví. Allir samferðamenn mannsins voru settir í sóttkví. Lögreglan á Norðurlandi eystra greinir frá þessu á Facebook.

Lífið heldur áfram í góða veðrinu hér norðan heiða og glíman við COVID vágestinn sömuleiðis. Góðu fréttirnar eru að það...

Posted by Lögreglan á Norðurlandi eystra on Wednesday, 12 August 2020

Flestir með sóttvarnir í lagi

„Góðu fréttirnar eru að það hafa ekki verið að greinast mörg smit undanfarna daga, þannig að það er a.m.k. ekki eins brött uppsveifla eins og var í fyrstu bylgju. Sóttvarnarlæknir hefur því ekki lagt til hertar aðgerðir hér innanlands að svo komnu,“ segir í færslu lögreglunnar.

Lögreglan segist nú reglulega fara í heimsóknir í verslanir og til þjónustufyrirtækja til að passa að hundrað manna samkomubanninu og tveggja metra reglunni sé fylgt eftir. „Þetta er í flestum tilvikum í góðu lagi þótt sums staðar hafi þurft að bæta úr. Við viljum endilega minna ykkur á að 2ja metra reglan gildir líka í sundlaugum, á börum og á líkamsræktarstöðvum.“

„Sýnum ábyrga hegðun, pössum okkur og sýnum fólkinu í kring um okkur þá kurteisi að virða 2ja metra regluna. Munum eftir persónulegu vörnunum, handþvotti og sprittun. Veiran er enn í samfélaginu og bíður færis að komast í okkur!“