Hanna Lind Garðarsdóttir fékk niðurstöðu úr sýnatöku hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins um að ekkert óeðlilegt hafi fundist þrátt fyrir hafa nýlega greinst með leghálskrabbamein hjá Kvensjúkdómalækni.

„Ég var heppin að þetta fannst snemma, fannst á fyrsta stigi og var því skurðtækt. Ég var heppin að ég fór í random skoðun hjá kvensjúkdómalækni en ekki bara í sýnatöku hjá Leitarstöðinni. Hvað ef ég hefði ekki pantað tíma hjá kvennsa? Hvað ef ég hefði ekki ákveðið að láta taka úr mér lykkjuna strax? Hvað ef, hvað ef. Ég ætla að reyna hætta hugsa hvað ef,“ segir Hanna Lind í færslu sem hefur vakið mikla athygli.

Hún hafði samband við Krabbameinsfélagið eftir að hafa fengið greiningu hjá kvensjúkdómalækni og við endurskoðun á sýninu var staðfest að hún væri með krabbamein.

Hún segir í samtali við Fréttablaðið að það sé sorglegt að það þurfi endurskoðun á sýni til að greina óeðlilegar breytingar.

„Auðvitað eiga þau að fara vel yfir öll sýni í fyrstu tilraun. En sem betur fer seinkaði þetta ekki greiningarferli hjá mér en maður velti fyrir sér hvað svona vinnubrögð hafi haft áhrif á margar konur. Þetta er auðvitað bara ekki boðlegt.“

Hanna Lind greindist með krabbamein í leghálsi í nóvember eftir skoðun hjá Kvensjúkdómalækni til að láta taka úr sér lykkjuna. Við skoðunina fannst lítill sepi sem var skorinn af og sendur í greiningu. Eftir blóðprufur, myndatökur, segulómun og tölvusneiðmyndatöku fékk Hanna þær gleðifréttir um að ekkert æxli hafi fundist. Læknirinn vildi þó framkvæma keiluskurð til að ganga úr skugga um að engar krabbameinsfrumur væru enn til staðar.

Um svipað leyti fór Hanna Lind í leghálsskoðun hjá Krabbameinsfélaginu þar sem hún þær niðurstöður um að ekkert óeðlilegt hafi fundist við sýnatöku.

Í fyrra var mikið fjallað um mistök á greiningu hjá félaginu eftir að kona um fimm­tugt fékk rangar niður­stöður eftir skoðunþ Hún reyndist síðar vera með ó­læknandi krabba­meini sem lík­legt er að hefði verið hægt að koma í veg fyrir. Lögmaður konunnar, Sævar Þór Jónsson, fékk tólf fyrirspurnir í kjölfarið og ákvað að skoða þrjú mál í tengslum við rangar greiningar.

„Þetta var áfall, mikið áfall og þarna í fyrsta sinn brotnaði ég alveg niður.“

Sár biti að kyngja

Tveimur vikum eftir keiluskurðinn hringir læknirinn og tilkynnti henni að skurðbrúnirnar væru óljósar og því ekki hægt að vita hvort að allar krabbameinsfrumurnar væru búnar að dreifa sér út fyrir leghálsinn. Þurfti hún að fara í útvíkkað legnám þar sem legið yrði tekið ásamt leghálsinum, eggjaleiðurum, vefjum í kring og eitlum báðum megin í grindarholi.

„Þetta var áfall, mikið áfall og þarna í fyrsta sinn brotnaði ég alveg niður. Ég var búin að taka þetta á hnefanum fram að þessu. Við Óli erum heppin að eiga tvö yndisleg börn, ég er ánægð að við eignuðumst börn snemma en núna er verið að taka af okkur valmöguleikann á að eiga fleiri börn. Mig hefur alltaf langað í þrjú börn og því er þetta stór og sár biti að kyngja. Ég vildi samt fara í þessa aðgerð og það kom aldrei neitt annað til greina.“

„LÆKNUÐ!!“

Aðgerðin gekk vel að sögn Hönnu Lindar og þurfti hún að dvelja á Kvenndeild Landspítalans í fjórar nætur. Segir hún fyrstu dagana hafa verið vægast sagt erfiðir og sársaukafullir. Þann 21. janúar fékk hún svo bestu fréttir í heimi.

„Ég er krabbameinslaus, það fannst ekkert krabbamein í vefjum í kring, ekkert í eitlunum, ekkert í legi, ekkert! Krabbameinið var ekki búið að dreifa sér og var það allt farið, ég er læknuð. LÆKNUÐ!! Mig langaði að fara út og öskra þetta.“

Segist hún hafa upplifað algjöran tilfinningarússíbana frá greiningu og ekki þorað að að hlakka til neins. Nú þurfi hún að jafna sig eftir aðgerðina og byggja upp andlegu hliðina. „Einnig verð ég auðvitað í góðu eftirliti hjá lækninum mínum næstu árin. Má þetta krabbamein algjörlega fokka sér. “

Semja við danska rannsóknarstofu

Heilbrigðisráðuneytið tilkynnti í gær um ákvörðun um að semja við erlendan aðila um rannsóknir á krabbameinssýnum vegna leghálsskimana í forvarnarskyni. Er þetta gert til að tryggja öryggi og gæði rannsóknanna og jafnframt sem stystan svartíma. Með samningi sem verið er að leggja á lokahönd milli Sjúkratrygginga Íslands og danskrar rannsóknastofu verður svartíminn að hámarki 3 vikur.

Samningur Sjúkratrygginga við Leitarstöð Krabbameinsfélagsins um að sinna meðal annars skimunum fyrir krabbameinum í leghálsi ásamt frumurannsóknum rann út síðastliðin áramót. Aftur á móti taldi leitarstöðin að til þess að geta lokið við greiningu uppsafnaðra leghálssýna fyrir þann tíma yrði að hætta að taka við tímabókunum í nóvember. Þegar upp var staðið um áramótin voru ógreind um 2.000 leghálssýni hjá leitarstöðinni. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur samið sérstaklega um greiningu þessara sýna og segir Óskar Reykdalsson, forstjóri stofnunarinnar að vænta megi niðurstöðu úr rannsóknum á þeim innan skamms.