Heiða Dögg, stjórnmálafræðingur, greindist 32 ára með einhverfu. Hún mætti í viðtal hjá Fréttavaktinni í gær og ræddi einkenni sín. Undanfarin ár hefur umræðan um einhverfu verið að opnast, ásamt því sem skilningur á einhverfurófinu hefur aukist.

Heiða Dögg greindist tiltölulega seint á lífsleiðinni og það var hún sjálf sem ákvað að fara í greiningu.

„Ég fer sjálf í greiningu og þá kemur í ljós að það fer ekki á milli mála að ég er einhverf. En ég fæ að vita það eftir á að ég fæ greining, af móður minni að ég fór til sálfræðings fimm ára, og ef hann hefði vitað eitthvað þá hefði ég verið greind á staðnum.

Einhverfa er alls konar

Það er ekki hægt að segja að einhverfa sé eins fyrir alla, heldur er hún á rófi og því upplifir hver einstaklingur hana öðruvísi. Til dæmis segir Heiða Dögg að hún finni aðallega fyrir henni í gegnum skynfærin.

„Mín einhverfa er þannig að ég er ekki alltaf ,,verbal". Ég er með skynjunaráreiti, sem er algengt í einhverfu, ljós, hljóð, lykt þetta hefur allt áhrif. Eins og þegar ég fer í stórmarkaði eins og Bónus, Kringluna, Krónuna. Þá líður mér best þegar ég er með heyrnatólin mín og sólgleraugu,“ segir Heiða Dögg.

Hinsvegar segir hún að hún finni ekki fyrir óþægindum að mæta í viðtal í sjónvarpi, sökum þess að henni líði öruggri.

,,Af því að þú ert þægileg og það er mikilvægt að upplifa öryggi. Það er oft sagt að við séum óvissufælin, það er ekki alveg satt, en við þurfum bara ,,gígantískt“ öryggi,“ segir Heiða Dögg.

Að fela einhverfuna

Stundum er talað um að einhverfir séu að spila hlutverk og reyna að fela einkennin og Heiða Dögg tekur undir þetta að vissu leiti.

„Eins og ég sé þetta þá snýst þetta um að láta öðrum líða vel, að láta ekki mína einhverfu vera bögg fyrir aðra, eins og ég horfi ekki alltaf í augun á fólki. Þegar maður horfir ekki í augun á fólki þá er eins og maður haldi ekki athygli. En ég held athygli, stundum er bara óþægilegt að horfa í augun og það verður svona óróleikaorka og þá er eins og ég ,,fúnkeri“ ekki og meðtek ekki samræðurnar sem eru í gangi.“

Horfið á viðtalið í heild sinni hérna fyrir ofan.

Fréttavaktin er sýnd alla virka daga á Hringbraut og Fréttablaðið.is klukkan 18:30.