Neysla landsmanna á joði, sem fæst úr fiskafurðum og mjólkurvörum, hefur farið hratt minnkandi hér á landi á síðustu áratugum – og þess sér stað við frammistöðu barna á greindarprófum.

Þetta er meðal þess sem fram hefur komið í ítarlegum rannsóknum Ingibjargar Gunnarsdóttur, prófessors í næringarfræði við Háskóla Íslands, sem staðið hafa yfir í áratug og hverfast um næringarþörf barnshafandi kvenna.

Eitt þúsund barnshafandi konur hafa tekið þátt í rannsókninni, þar sem þvag- og blóðprufur hafa verið teknar til að sýna næringarástand þeirra, en einnig hefur verið fylgst með þróun á þarma­flóru fjölda barna þeirra kvenna sem þátt tóku.

„Í rannsókninni höfum við verið að þróa einfalt skimunartæki til að finna konur sem gætu haft gagn af því að breyta mataræði sínu á meðgöngu,“ segir Ingibjörg.

„Kveikjan að því er að við sáum fyrir nokkrum árum að tíðni meðgöngusykursýki er algengari hjá konum yfir kjörþyngd fyrir þungun. En þá tókum við líka eftir því að þær konur sem eru yfir kjörþyngd en borða góðan og hollan mat eru ekki í meiri hættu á að fá meðgöngusykursýki.“

Rannsóknarteymi Ingibjargar hefur einkum horft til þess hvaða næring hefur helst áhrif á heilsu móður og barns og hvað skortur á ákveðnum bætiefnum getur haft í för með sér.

„Við vissum svo sem að góður D-vítamínhagur er barnshafandi konum á Íslandi mjög mikilvægur, eins og raunar öllum landsmönnum í sólarleysinu í skammdeginu, en við áttuðum okkur svo á því að joð-hagurinn skiptir líka sköpum,“ segir Ingibjörg.

Minni joðneysla, af völdum breyttra neysluhátta, hefur sín áhrif.

„Lítið joð hjá barnshafandi konum hefur verið tengt við lakari frammistöðu barna á greindarprófum,“ segir Ingibjörg sem var gestur í nýjustu þáttaröðinni af Vísindunum og okkur á Hringbraut í vikunni.