Lögreglan í Suður-Afríku hefur enn ekki haft hendur í hári Maréns de Klerk, lögfræðings sem er meðal sakborninga í Samherjamálinu í Namibíu. Handtökuskipun var gefin út á hendur de Klerk í júní síðastliðinn þar sem hann er grunaður um að stýra mútugreiðslum til namibískra embættismanna í skiptum fyrir fiskveiðikvóta við strendur Namibíu sem Samherji fékk í sinn hlut.

De Klerk er vændur um að hafa annast millifærslu á peningum innan tengslanets James Hatuikulipi og Sacky Shangala, meðal annars frá Samherja. Að því er kemur fram í umfjöllun Stundarinnar frá því í janúar hefur de Klerk haldið því fram að lífi hans hafi verið ógnað þar sem hann búi yfir upplýsingum sem bendli háttsetta namibíska ráðamenn við mútugreiðslurnar.

Fréttamiðillinn The Namibian Sun hefur það eftir heimildum sem sagðar eru nánar de Klerk að hann hafist nú við á óðali á lúxusgolfvelli nærri bæ í Boland í Vesturhöfða. Chrispin Phiri, talsmaður suður-afríska dómsmálaráðuneytisins, segir lögregluna hins vegar ekki hafa fundið de Klerk og því sé ekki unnt að framselja hann til Namibíu.

Í netheimum er de Klerk þó auðfundinn þar sem hann hefur komið sér upp heimasíðu með léninu marendeklerk.com. Á síðunni birtir de Klerk lögfræðigreinar og greinar með ráðleggingum um hamingjusamt líferni. Greinarnar bera titla á borð við „Kraftaverk kraftaverkanna,“ „Hvernig lítur ástin út?“ og „Fegurð vonarinnar.“ Ekki ber heimasíðan með sér að höfundurinn sé á flótta undan lögreglu eða að lífi hans sé ógnað.

Auk greinanna er að finna eina mataruppskrift á heimasíðunni. Svo vill til að hún er fiskuppskrift.