Íslenskir ríkisborgarar og aðrir ferðamenn sem hafa fengið Covid-19 innan við 15 til 180 daga ramma þurfa ekki að framvísa neikvæðu PCR prófi eða antigen hraðprófi á landamærunum. Bólusettir þurfa eftir sem áður að koma með neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi / antigen hraðprófi við komuna til landsins.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið sendu frá sér áréttingu á vef Stjórnarráðsins í dag um sóttvarnarreglur við komu til landsins

Þórmundur Jónatansson, upplýsingafulltrúi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, segist hafa orðið var við misskilning eftir að reglugerðin tók gildi um mánaðarmótin og vill því greiða úr flækjunni.

„Þetta er í raun óbreytt fyrir utan þessa undantekningu. Reglugerð okkar hefur í raun engin áhrif á reglugerð heilbrigðisyfirvalda um kröfur á landamærum. Við fjöllum um skyldur flugfélaga en reglugerð heilbrigðisráðuneytis um skyldur einstaklinga við komur til landsins,“ útskýrir Þórmundur í samtali við Fréttablaðið.

Þau sem fá jákvæða niðurstöðu úr Covid-19 prófi á leið til landsins þurfa að sjálfsögðu að fara í einangrun. Undantekningin á þá við um þá sem eru með gamalt Covid-19 smit (milli 15 til 180 daga gamalt) en þetta er gert svo ríkisborgarar komist heim til Íslands en festist ekki erlendis. 

Stjórnvöld hafa aldrei áður birt jafn margar frétt á vef Stjórnarráðsins en í kringum kórónaveirufaraldurinn og því geta endalausar tilkynningar og fréttir um reglugerðir ruglað fólk í rýminu.

„Markmið allra stjórnvalda er að tryggja að þetta sé eins gegnsætt og kostur er. Við höfum líka þann skilning á því að það geti komið upp vangaveltur og grunnuppýsingarnar eru alltaf á covid.is. Jafnvel þó þær séu skýrar þar koma alltaf upp pælingar og maður hefur skilning á því. Að athuguðu máli ákváðum við að hafa frumkvæði að því að árétta þetta.“

Finna má leiðbeiningar um reglur á landamærunum á Covid.is