Mennta- og barnamálaráðuneytið tilkynnti í gærað þau hefðu komist að samkomulagi við Hafdísi Helgu Ólafsdóttur um að greiða henni 2,3 milljónir í bætur. Hafdís Helga var einn umsækjenda um starf ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu árið 2019 og var metin meðal þeirra sem voru vel hæf en ekki hæfust.

Hún kærði þessa niðurstöðu til kærunefndar jafnréttismála sem úrskurðaði henni í hag og mat það svo að kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um skipan í embætti ráðuneytisstjóra og því hafi verið brotið gegn jafnréttislögum.

Í framhaldinu höfðaði fyrrum mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir, mál gegn Hafdísi til þess að hnekkja úrskurði kærunefndar jafnréttismála.

Í frétt á vef RÚV í gær er haft eftir Hafdísi Helgu að harðræði Lilju D. Alfreðsdóttur sé loks lokið og að sært stolt hennar hafi verið skattgreiðendum dýrkeypt. Þar kemur einnig fram að Hafdís segir málsókn Lilju hafa verið fordæmalausa og að ráðherrann hafi þurft að draga hana persónulega fyrir dóm sem ekki hafi þvælst fyrir henni. Hún segir að þetta megi ekki endurtaka sig.