Samninganefnd Eflingar samþykkti í gær verkfallsboðun sem tekur til starfsstöðva Íslandshótela á félagssvæði Eflingar. Atkvæðagreiðslan opnar á hádegi þriðjudags og stendur fram á mánudagskvöld. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu.
Boðunin fer í atkvæðagreiðslu hjá félagsfólki sem verkfallsaðgerðirnar taka til. Þar er um að ræða félagsfólk Eflingar sem sinnir þrifum á herbergjum og í sameiginlegum rýmum, störfum í eldhúsi, við framreiðslu veitinga, þvott og fleira.
Eins og fyrr segir tekur boðunin til starfsstöðva Íslandshótel á félagssvæði Eflingar. Þessi hótel eru Hotel Reykjavík Saga, Hotel Reykjavík Grand, Hotel Reykjavík Centrum, Fosshotel Reykjavík, Fosshotel Baron og Fosshotel Lind.
„Hótelstarfsfólk er með lægst launaða fólki á íslenskum vinnumarkaði, að yfirgnæfandi meirihluta konur af erlendum uppruna. Þessi sami hópur samþykkti sögulegar verkfallsaðgerðir vorið 2019 sem áttu mikinn þátt í að ljúka góðum kjarasamningum þá. Eftir þessu man félagsfólk. Hjá þeim skynja ég sama hugrekki, sömu reisn og sömu staðfestu og árið 2019,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Á morgun fer fram fundur ríkissáttasemjara með samninganefndum Eflingar og Samtaka atvinnulífsins.
„Ég og félaga mínir höfum alltaf þær vonir að viðsemjendur okkar skilji að kröfur okkar eru sanngjarnar og réttmætar og að þeir bregðist við þeim með skynsemi og sjái að það er auðvitað ekkert nema eðlilegt að ganga til samninga við okkur á forsendum þessara krafna. Hvort það svo gerist á morgun á svo eftir að koma í ljós,“ segir Sólveig í samtali við Fréttablaðið.
Samninganefnd Eflingar fundaði í gær með starfsfólki Íslandshótela. Meðlimir samninganefndarinnar hafa undanfarið heimsótt allar starfsstöðvar Íslandshótela og ræddu við Félagsfólk.
Í tilkynningunni frá Eflingu kemur fram að samninganefndin krafðist þess í síðasta tilboði til Samtaka atvinnulífsins, að að hótelstörf yrðu hækkuð um launaflokk. Töfluhækkun tilboðs Eflingar myndi skila hótelstarfsmönnum með eins árs starfsaldur rúmlega 55 þúsund króna hækkun grunnlauna, til viðbótar við framfærsluuppbót að upphæð fimmtán þúsund krónum á mánuði vegna hás framfærslukostnað á höfuðborgarsvæðinu.