Samninga­nefnd Eflingar sam­þykkti í gær verk­falls­boðun sem tekur til starfs­stöðva Ís­lands­hótela á fé­lags­svæði Eflingar. At­kvæða­greiðslan opnar á há­degi þriðju­dags og stendur fram á mánu­dags­kvöld. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Eflingu.

Boðunin fer í at­kvæða­greiðslu hjá fé­lags­fólki sem verk­falls­að­gerðirnar taka til. Þar er um að ræða fé­lags­fólk Eflingar sem sinnir þrifum á her­bergjum og í sam­eigin­legum rýmum, störfum í eld­húsi, við fram­reiðslu veitinga, þvott og fleira.

Eins og fyrr segir tekur boðunin til starfsstöðva Íslandshótel á félagssvæði Eflingar. Þessi hótel eru Hotel Reykjavík Saga, Hotel Reykjavík Grand, Hotel Reykjavík Centrum, Fosshotel Reykjavík, Fosshotel Baron og Fosshotel Lind.

„Hótel­starfs­fólk er með lægst launaða fólki á ís­lenskum vinnu­markaði, að yfir­gnæfandi meiri­hluta konur af er­lendum upp­runa. Þessi sami hópur sam­þykkti sögu­legar verk­falls­að­gerðir vorið 2019 sem áttu mikinn þátt í að ljúka góðum kjara­samningum þá. Eftir þessu man fé­lags­fólk. Hjá þeim skynja ég sama hug­rekki, sömu reisn og sömu stað­festu og árið 2019,“ sagði Sól­veig Anna Jóns­dóttir for­maður Eflingar.

Á morgun fer fram fundur ríkissáttasemjara með samninganefndum Eflingar og Samtaka atvinnulífsins.

„Ég og fé­laga mínir höfum alltaf þær vonir að við­semj­endur okkar skilji að kröfur okkar eru sann­gjarnar og rétt­mætar og að þeir bregðist við þeim með skyn­semi og sjái að það er auð­vitað ekkert nema eðli­legt að ganga til samninga við okkur á for­sendum þessara krafna. Hvort það svo gerist á morgun á svo eftir að koma í ljós,“ segir Sól­veig í sam­tali við Frétta­blaðið.

Samninga­nefnd Eflingar fundaði í gær með starfs­fólki Ís­lands­hótela. Með­limir samninga­nefndarinnar hafa undan­farið heim­sótt allar starfs­stöðvar Ís­lands­hótela og ræddu við Fé­lags­fólk.

Í til­kynningunni frá Eflingu kemur fram að samninga­nefndin krafðist þess í síðasta til­boði til Sam­taka at­vinnu­lífsins, að að hótel­störf yrðu hækkuð um launa­flokk. Töflu­hækkun til­boðs Eflingar myndi skila hótel­starfs­mönnum með eins árs starfs­aldur rúm­lega 55 þúsund króna hækkun grunn­launa, til við­bótar við fram­færslu­upp­bót að upp­hæð fimm­tán þúsund krónum á mánuði vegna hás fram­færslu­kostnað á höfuð­borgar­svæðinu.