Á nýjasta fundi bæjarráðs Garðabæjar var samþykkt að hefja viðræður við Framkvæmdarfélagið Arnarhvoll um tilboð félagsins í byggingarrétt lóða í Vetrarmýri í Garðabæ.

Alls sendu þrettán félög inn tilboð í lokuðu útboði við úthlutun lóðarréttinda og sölu byggingarrétta í Vetrarmýri í landi Vífilsstaða í Garðabæ.

Arnarhvoll átti hæsta tilboðið í allar lóðir, tæplega sextíu milljónum hærra en Flotgólf ehf. sem gerði tilboð í hvern reit fyrir sig.

Fyrir vikið samþykkti bæjarráð að fela bæjarstjóra og fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka að hefja viðræður og leita samninga við Framkvæmdafélagið Arnarhvoll sem er hæstbjóðandi samtals í alla reiti.

Um er að ræða nýtt tuttugu hektara uppbyggingarsvæði í Garðabæ meðfram Reykjanesbraut til vesturs, Vífilsstaðavegi til suðurs, golfvelli GKG til austurs og Hnoðraholti til norðurs við nýju íþróttahöll Garðbæinga.

Áætluð heildarstærð byggðar í Vetrarmýri er um 66.000 fermetrar af fjölbýli og 36.000 fermetrar af atvinnuhúsnæði með 664 íbúðum að hámarki.

Í fyrsta áfanganum eru boðnir út u.þ.b. 26.000 fermetrar af fjölbýli og 26.000 fermetrar af atvinnuhúsnæði á fimm aðskildum reitum auk möguleika fyrir bjóðendur í atvinnuhúsnæði að bjóða í bílastæðahús við Reykjanesbraut.