Til stendur að greiða 200 milljónir króna til fjölskyldna langveikra barna sem hafa vegna ástandsins átt erfitt með að nýta sér þann stuðning sem er í boði.

Þetta kom fram á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Safnahúsinu þar sem frekari efnahagsaðgerðir vegna Covid-19 voru kynntar.

Einnig er lagt til að 145 milljónir króna verði nýttar til stuðnings þolenda heimilisofbeldis og í aðgerðir þar að lútandi.

Þá verða 55 milljónir króna settar í vitundavakningu um ofbeldi gegn börnum, styrkingu á Barnahúsi og til stuðnings fjölskyldna, sem hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem er ætlað að vernda viðkvæma hópa.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, greindi þar að auki frá því að starfsemi í kringum viðkvæma hópa á borð við aldraða og öryrkja sem hafi fundið fyrir félagslegri einangrun yrði efld.

Þá hyggst ríkisstjórnin styðja við fjölskyldur fatlaðra barna og barna af erlendum uppruna. Fyrirhugað er að 450 milljónir króna renni í þau verkefni.

Einnig verða 600 milljónir settar í verkefni tengd íþróttastarfi og tómstundum barna.