Breskir þingmenn munu kjósa um breytingartillögu í kvöld en í tillögunni felst að boðað verði til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit en þetta er ljóst eftir að John Bercow, þingforseti samþykkti umrædda tillögu auk þriggja annarra, að því er fram kemur á vef Guardian. Hinar þrjár tillögurnar fela meðal annars í sér að þinginu verði gert kleyft að finna aðrar leiðir að útgöngu úr sambandinu, án liðsinnis ríkisstjórnarinnar og að May verði meinað að leggja samning sinn aftur fram fyrir þingið.

Umrædd breytingartillaga var sett fram af Söruh Wollaston, en hún sagði sig nýlega úr Íhaldsflokknum og gekk til liðs við nýjan hóp Evrópusinnaðra þingmanna úr Íhaldsflokknum og Verkamannaflokknum. Í henni er gert ráð fyrir að útgöngu Bretlands verði frestað svo hægt verði að skipuleggja þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem áframhaldandi vera innan sambandsins verður meðal valkosta.

May hefur áður sagt að hún ætli sér að leggja samning sinn fram að nýju í næstu viku og að þeir þingmenn sem séu fylgjandi Brexit ættu að fylkja sér á bak við þann samning, ellegar eiga á hættu á að útgöngu landsins úr sambandinu verði frestað um óákveðinn tíma.

Sjá einnig: Kjósa um Brexit þriðja daginn í röð

Samkvæmt heimildum Guardian mun flokksforrusta Verkamannaflokksins ýta á sína þingmenn um að sitja hjá í atkvæðagreiðslum um tillöguna en ljóst er að þingmenn innan flokksins hafa skiptar skoðanir um málið. Einn þingmannanna sem Guardian ræðir við segir að of snemmt sé að ræða um aðra þjóðaratkvæðagreiðslu og að þinghöld í dag eigi að snúast um frestun á Brexit, svo hægt verði að ræða hana síðar.

Nokkur óánægja ríkir innan neðri deild breska þingsins með ákvörðun Bercow en 111 þingmenn Íhaldsflokksins höfðu lagt fram breytingartillögu þar sem lagt var upp með að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla yrði ekki á dagskrá en Bercow tók tillöguna ekki á dagskrá. Atkvæðagreiðslur munu hefjast klukkan sjö í kvöld þar sem þingið ákveður hvernig og með hvaða hætti Brexit verður frestað.