Michigan State háskólinn hefur samþykkt að greiða 500 milljónir Bandaríkjadala í sáttargreiðslu til þeirra fjölda kvenna sem sjúkraþjálfarinn Larry Nassar braut á kynferðislega um langt árabil. Þar með, tilkynntu báðir málsaðilar í dag, er málinu lokið.

Greiðslunni verður þannig skipt að 425 milljónum dala verður skipt jafnt á milli brotaþola, sem fær þá hver um 1,28 milljón Bandaríkjadala í bætur. Það samsvarar um 133 milljónum íslenskra króna. Skólinn hefur síðan lofað að taka til hliðar 75 milljónir dala sem settar verða í sjóð kunni fleiri brotaþolar að stíga fram í framtíðinni.

„Þessi sögulega sáttargreiðsla á sér einungis stað vegna hugrekkis um þrjú hundruð kvenna og stúlkna sem stigu fram og neituðu að láta þagga í sér. Það er von þeirra sem þetta lifðu af að greiðslan muni hafa áhrif á stofnanir, skóla og íþróttasamtök víða í samfélaginu og geti þannig komið í veg fyrir frekara kynferðislegt ofbeldi,“ sagði John Manly, einn lögfræðinga kvennanna í yfirlýsingu í dag. Greint er frá á Washington Post.

Nassar situr nú af sér ævilangan fangelsisdóm eftir að hann játaði að hafa kynferðislega áreitt níu stúlkur og konur í Michingan. Auk þess játaði hann að hafa haft í fórum sínum barnaklám. Þegar hann var dæmdur í janúar síðastliðinn mættu um 150 konur og stúlkur og sögðu frá því ofbeldi sem hann beitti þær.

Sáttagreiðslan nær aðeins til þeirra einstaklinga sem sóttu nám við skólann en ekki annarra sem Nassar kann að hafa brotið á, en hann hefur einnig verið sakaður um að brjóta á konum í starfi sínu sem sjúkraþjálfari fyrir ólympíufara í fimleikum.  

Fyrstu brotin gegn Nassar voru tilkynnt árið 2016. Eftir það stigu fjölmargar konur fram eða tilkynntu hann til lögreglu fyrir brot sem ná allt til ársins 1997.