Mar­jori­e Taylor Greene, full­trúa­deildar­þing­maður Repúblikana, hefur verið harð­lega gagn­rýnd fyrir að stilla upp skilti fyrir framan skrif­stofu sína sem virtist gera lítið úr upplifun trans ein­stak­linga en beint á móti skrif­stofu Greene er skrif­stofa full­trúa­deildar­þing­mannsins Mari­e Newman, sem á sjálf trans dóttur.

Greene á­kvað að hengja skiltið upp eftir að Newman birti mynd­band af sér hengja trans fánann fyrir utan skrif­stofu sína á mið­viku­dag þar sem þingið var að taka fyrir jafn­réttis­lög­gjöf sem myndi leggja bann við hvers kyns mis­munun í garð LGBTQ ein­stak­linga. Að sögn New­son var Greene and­snúin lög­gjöfinni og því hafi hún á­kveðið að hengja fánann upp.

„Ná­granni okkar [Greene] reyndi að stöðva jafn­réttis lög­gjöfina því hún trúir því að það að banna mis­munun gegn trans ein­stak­lingum sé „ó­geðs­legt, ó­sið­legt , og af hinu illa.“ Datt í hug að við myndum hengja upp trans fánann okkar svo hún geti horft á hann í hvert sinn sem hún opnar dyrnar sínar,“ sagði New­som í færslu um málið á Twitter.

Sagði Newman vilja „tortíma“ kvenréttindum

Sama dag svaraði Greene fyrir sig með því að stilla upp skilti sem á stóð að það væru að­eins tvö kyn, karl- og kven­kyn. „Treystu vísindunum,“ stóð enn fremur á skiltinu en hún hefur áður kallað dóttur Newman "líffræðilegan son" hennar.

„Ná­granni okkar [Newman] vill sam­þykkja hina svo­kölluðu „jafn­réttis“ lög­gjöf til að tor­tíma kven­réttindum og trúar­frelsi. Datt í hug að við myndum hengja okkar upp svo hún geti horft á það í hvers sinn sem hún opnar dyr sínar,“ skrifaði Greene á Twitter þar sem hún sást hengja skiltið upp og var þar augljóslega að herma eftir myndbandi Newman.

Standa með Newman

Fjölmargir hafa nú gagnrýnt uppátæki Greene í vikunni og hafa kallað eftir því að þingið lýsi yfir stuðningi við Newman. Repúblikaninn Adam Kinzinger er þeirra á meðal en hann sagði færslu Greene vera drifna af hatri og tilraunum til að ná pólitískum frama með öllum tiltækum ráðum.

Í sam­tali við CNN segir Newman að hún hafi aldrei ætlað sér að fara í eitt­hvað stríð við Greene en henni hafi þótt mikil­vægt að skila­boðin kæmust á fram­færi. „Hún má halda á­fram að gera hvað sem hún er að gera, ég hef engan á­huga á því,“ sagði Newman og kvaðst ekki kippa sér upp við upp­á­tæki Greene.

Jafnréttislöggjöfin var að lokum samþykkt af fulltrúadeildinni í gær þar sem þrír Repúblikanar gengu til liðs við Demókrata.

Umdeildur þingmaður

Greene hefur verið veru­lega um­deild frá því að hún hlaut kjör sem full­trúa­deildar­þing­maður fyrir Georgíu-ríki í kosningunum síðast­liðinn nóvember en fljót­lega eftir að hún tók við em­bætti í janúar var greint frá for­dóma­fullum um­mælum sem hún hafði látið falla um minni­hluta­hópa og sam­særis­kenningum sem hún hafði tekið undir.

Meðal annars hafði hún haldið því fram að hátt settir með­limir Demó­krata­flokksins, til að mynda Nan­cy Pelosi, for­seti full­trúa­deildarinnar, væru rétt­dræpir en um­mæli hennar urðu til þess að henni var vikið úr nefndum þingsins fyrr í mánuðinum. Margir kölluðu eftir því að Greene yrði svipt þing­manna­sæti sínu í þokka­bót en til þess hefur ekki enn komið.

Skrifstofa Greene er á móti skrifstofu Newman.
Fréttablaðið/AFP