Íslensk löggæsla þykir sérstaklega berskjölduð fyrir pólitískum áhrifum að mati GRECO, samtaka ríkja gegn spillingu, sem birta í dag niðurstöður úttektar sinnar um æðstu handhafa framkvæmdarvalds og löggæslu á Íslandi.

„Samkvæmt samtölum okkar við fólk í vettvangsferðinni til Íslands er það sambland nokkurra þátta sem bendir til þessa,“ segir Gianluca Esposito, sérfræðingur GRECO sem kom hingað til lands síðastliðið haust og er einn höfunda skýrslunnar.

Esposito vísar í fyrsta lagi til þess að þrátt fyrir að lögreglan sé í orði kveðnu undir stjórn og háð eftirliti ríkislögreglustjóra, sé ábyrgðarkeðjan innan löggæslunnar ekki lóðrétt heldur lárétt. Þannig heyri ekki aðeins ríkislögreglustjóri beint undir ráðherra, heldur heyri lögreglustjórar umdæmanna í raun ekki undir ríkislögreglustjóra heldur einnig beint undir ráðherra. Þetta þýði að allir níu lögreglustjórar landsins stýri daglegum löggæslustörfum undir beinni stjórn ráðherra. Við þetta bætist einnig að héraðssaksóknari, sem hefur eftirlitsskyldur gagnvart löggæslunni og ákæruvaldi, lýtur einnig skipunarvaldi ráðherra.

Í öðru lagi séu ekki aðeins helstu stjórnendur innan lögreglunnar heldur einnig óbreyttir lögreglumenn skipaðir til fimm ára í senn. „Segjum sem svo að ráðherranum líki ekki við einhvern, þá er tiltölulega auðvelt að framlengja ekki ráðningu viðkomandi án þess að ráðherra þurfi að gefa sérstaka skýringu á því,“ segir Esposito og vísar einnig til þess að þrátt fyrir reglur um skipanir í embætti mæli GRECO sérstaklega með því að ráðningar- og skipunarferli innan lögreglunnar verði opnara og gegnsærra, lausar stöður og embætti verði auglýst, hæfniskröfur skýrar og mat á hæfni umsækjenda fari fram eftir gegnsæjum og skýrum reglum.

Í þriðja lagi segir Esposito samtökin hafi fundið fyrir þeirri ásýnd fólks í vettvangsferð sinni að sterk og rótgróin tengsl séu milli íslenskra löggæsluyfirvalda og tiltekins stjórnmálaflokks og fyrir því muni vera sögulegar ástæður. „Tilfinningin er að það þyki jákvætt að vera virkur þátttakandi í þessum tiltekna flokki,“ segir Esposito og bætir við að GRECO hafi einnig orðið áskynja um þau viðhorf innan lögreglunnar að ákjósanlegt þyki fyrir frama innan löggæslunnar að hafa góð tengsl við eða vera meðlimur í viðkomandi stjórnmálaflokki.

Að lokum segir Esposito samtökin hafa fengið upplýsingar og dæmi um tilvik innan lögreglunnar, þar sem þessi hætta á pólitískum afskiptum hafi raungerst með beinum afskiptum ráðherra af störfum lögreglu.

Tilmæli um úrbætur

Auk tilmæla GRECO um skýrari reglur um ráðningar og skipanir í embætti er mælst sérstaklega til þess að valdauppbygging innan lögreglunnar verði endurskoðuð með það að markmiði meðal annars að takmarka afskipti ráð- herra og stjórnmála.

Skerpa þurfi einnig á ábyrgð og leiðtogahlutverki ríkislögreglustjóra. Þá er mælt með því að allt innra eftirlit verði á borði miðlægrar deildar sem heyri undir ríkislögreglustjóra. Bent er á að hér á landi séu minniháttar brot í starfi meðhöndluð af lögreglustjórum umdæmanna og í viðtölum sendinefndar GRECO hafi efasemdum verið lýst um að lögreglumenn sem vinni saman í daglegum verkefnum hafi nægilega fjarlægð til að leggja óháð og hlutlaust mat á störf félaga sinna eða stofnana.

Þá er mælst til þess að rammi utan um ábendingar um meint brot lögreglumanna, stjórnenda eða stofnana verði styrktur og vernd fyrir afhjúpendur innan löggæslunnar verði tryggð með skýrum hætti. Aðspurður segir Esposito mikilvægt að slíkir ferlar séu skýrir og einnig, ef sýnt þyki að hún dugi ekki, þurfi að tryggja þeim vernd sem leita þurfi út fyrir löggæslustofnanir, til dæmis til annarra yfirvalda eða fjölmiðla.