Ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line á Íslandi lýsir yfir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun stjórnvalda að ætla innheimta 15 þúsund krónur fyrir skimun ferðamanna á Keflavíkurflugvelli.

Fyrirækið telur þessa gjaldtaka vinna gegn öllum áformum um að koma ferðaþjónustunni aftur í gang, draga úr atvinnuleysi og auka gjaldeyristekjur.

Segja gjaldið leggjast illa í erlenda ferðaskipuleggjendur

Í tilkynningu frá fyritækinu segir að gjaldið leggst illa í erlenda ferðaskipuleggjendur.

„Í samskiptum við okkur hjá Gray Line tala þeir tæpitungulaust um að þessi hái og óvænti viðbótarkostnaður sé rothögg og geti gert útslagið þegar ferðamenn standa frammi fyrir því að velja áfangastað."

Þá telur fyritækið að þessi gjaldtaka geri Ísland ósamkeppnishæft við önnur lönd sem teljast öruggir áfangastaðir.

„Góð tilboð eru á hverju strái um allan heim og víða eru engar kröfur gerðar um skimanir eða þær kosti ekkert. Það er mikill misskilningur að 15 þúsund króna skimunargjald skipti ekki máli við valið."

Vilja að kostnaður verði lækkaður

Þá furðar fyrirtækið sig á þeirri ákvörðun ríkistjórnarinnar að ætla verja um 1,5 milljarði króna til að auglýsa Ísland sem áfangastað.

„Hætt er við að skimunargjaldið núlli út árangurinn af þeirri auglýsingaherferð. Til hvers er þá farið af stað?"

Gray Line vill að kostnaður við sýnatöku verði lækkaður og aðgerðir verði sambærilegar og hjá öðrum löndum sem opna landamæri sín á ný.

Þá heldur fyrirtækið því fram að þessi framkvæmd sé hægfræðilega röng.

„Stjórnvöld hafa fullyrt að hagfræðilega sé rétt að láta ferðamenn og Íslendinga borga fyrir skimunina. Þvert á móti er þetta hagfræðilega rangt. Fyrir hvern ferðamann sem ákveður að koma ekki hingað vegna gjaldsins tapar þjóðfélagið af 250 þúsund króna gjaldeyristekjum að meðaltali," segir í tilkynningu.

Þórir Garðarsson stjórnarformaður Gray Line segir að lokum:

„Ef ekki verður einfaldlega hætt við alla skimun ferðamanna sem hingað koma, þá er nauðsynlegt að lágt gjald verði aðeins tekið til málamynda, eða hreinlega ekki neitt."