„Ég veit ekki hvort við erum komin á þann stað,“ segir Sóley Björk Stefánsdóttir, ritari Vinstri grænna, spurð hvort flokksfólk íhugi að slíta stjórnarsamstarfi. „Þetta er risamál. Ég bíð spennt eftir að sjá hvað mitt fólk gerir.“

Hiti er í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur þar sem ráðherra greinir á um hvort vísa eigi fjölda hælisleitenda úr landi. Fréttablaðið hefur rætt við fólk í grasrót flokksins sem vill slíta samstarfinu en í stefnu VG segir um innflytjendur og fólk á flótta, að íslenskt samfélag eigi að taka þeim fagnandi sem hingað koma, óháð uppruna þeirra eða þeim forsendum sem dvölin byggir á. „Fordómar sem byggja á uppruna og trúarbrögðum verða ekki liðnir á Íslandi, né heldur orðræða og framkoma sem felur í sér hatur og tortryggni gagnvart innflytjendum,“ segir í stefnu flokksins.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
Fréttablaðið/Anton Brink

Í fréttum RÚV á miðvikudagskvöld sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, það rangt hjá Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra að eining ríkti í ríkisstjórninni um brottvísanirnar. Ráðherrar Framsóknarflokksins og aðrir ráðherrar VG sem tjáðu sig í gær, tóku undir með Guðmundi Inga. Heimildir blaðsins herma að orð Guðmundar Inga hafi verið í sátt við vilja Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra.

Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur.

Opinber átök af þessu tagi marka ákveðin þáttaskil að sögn Ólafs Þ. Harðarsonar stjórnmálafræðings, hverjar sem afleiðingarnar verða. „Við erum í annað skipti á stuttum tíma að sjá svona skeytasendingar milli ráðherra,“ segir Ólafur. Fyrra tilvikið hafi verið orð Lilju Alfreðsdóttur um bankasöluna.

„Þessi ummæli Guðmundar Inga eru enn harðskeyttari en ummæli Lilju. Það er í rauninni nýtt í stjórn Katrínar að við sjáum svona opinberar skeytasendingar milli ráðherra,“ segir Ólafur, sem telur málið til marks um vaxandi pirring meðal stjórnarflokkanna tveggja. Grasrót VG kunni að ráða úrslitum um framhaldið.

„Þetta er staða sem getur komið upp þegar mjög ólíkir flokkar vinna saman í meirihluta,“ segir Jódís Skúladóttir, þingmaður VG. Hún segir ekki fullreynt með að flokkarnir geti starfað áfram í stjórn en finna verði farsæla lausn hið fyrsta það.

Jódís Skúladóttir, þingkona Vinstri grænna.
Mynd/Anton Brink

Biskup Íslands skipaði sér í vikunni í hóp þeirra sem gagnrýnt hafa fyrirhugaðar brottvísanir og vísaði hún meðal annars til kristinna gilda en Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem ekki telur ástæðu til að gera of mikið úr ágreiningi stjórnarflokkanna um málið, gagnrýnir biskup fyrir að hafa ekki kynnt sér málið.

„Mér finnst þessi umræða hennar ekki í samhengi og of einfölduð," segir Vilhjálmur, sem dregur í efa að allir sem hingað leita með ósk um hæli séu í raunverulegri neyð.

„Þeir sem eru ekki í nægilega mikilli neyð til að nýta þetta kerfi okkar, þeir mega ekki fylla kerfin fyrir hinum sem þurfa á að halda.“

Samkvæmt svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur síðastliðinn vetur, var meðalkostnaður íslenska ríkisins við brottflutning útlendinga um tvær milljónir króna árin 2020-21. Framfærsla útlendings sem hér bíður hælis í þrjú ár kostar vart minna en 10-12 milljónir króna. Arndís Anna, sem starfaði í 12 ár fyrir flóttamenn áður en hún settist inn á þing, segist ekki skilja hvað VG láti bjóða sér í stjórnarsamstarfinu. „Maður veit ekki hvenær Jón Gunnarsson talar gegn betri vitund, ég held að sumar rangfærslur hans séu vísvitandi,“ segir Arndís Anna.

Hún segir að burtséð frá því hvort stjórnin springi eða ekki sé verkefnið núna að stöðva brottvísanirnar. „Félagasamtök eru brjáluð og kirkjan og Rauði krossinn hafa líka stigið fram. Nú þurfum við baráttu frá almenningi líka,“ segir Arndís Anna. Ekkert bendi til að hælisleitendur séu að misnota kerfið.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingkona Pírata.
Fréttablaðið/Anton Brink

Sæta ásökunum um tafir

Mörg þeirra sem stendur til að vísa burt hafa náð tímamörkum en hefur verið synjað um endurupptöku og efnismeðferð vegna ásakana stoðdeildar ríkislögreglustjóra um tafir. Þær ásakanir eru sumar byggðar á mjög veikum grunni og í öðrum tilvikum beinlínis rangar, að sögn Magnúsar Norðdahl lögmanns sem á skjólstæðinga í hópi hælisleitenda. Hann segir dómsmál hafa verið höfðað um eitt málanna og verði það flutt 13. september.

„Vinnist málið er það fordæmisgefandi fyrir aðra í sömu stöðu, það er hælisleitendur sem hafa mátt sæta ásökunum um tafir. Stjórnvöld vilja eftir sem áður ekki bíða niðurstöðu heldur taka þá áhættu að framkvæma tugi ef ekki hundruð brottvísana sem síðar kann að koma í ljós að séu ólögmætar. Stjórnvöld sýna óbilgirni að vilja ekki bíða eftir niðurstöðu fordæmisgefandi dóms sem gæti haft áhrif á stöðu þeirra sem hafa náð tímamörkum. Það er hvorki í samræmi við meðalhóf né góða stjórnsýsluhætti,“ segir Magnús Norðdahl.