Veitingastaðurinn Grái Kötturinn beið lægri hlut í dómsmáli gegn Reykjavíkurborg. Dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Eig­endur Gráa kattarins, þau Ás­mundur Helga­son og Elín Ragnars­dóttir, kröfðu Reykja­víkur­borg um 18,5 milljónir króna í skaða­bætur, vegna tafa á fram­kvæmdum sumarið 2019. Töldu þau borgina hafa brugðist upplýsingaskyldu sinni og ekki gripið til að­gerða til að bregðast við töfum á fram­kvæmdunum.

Ásmundur og Elín sögðust hafa orðið fyrir miklu tjóni vegna framkvæmdanna við Hverfisgötu sem stóðu yfir frá maí til nóvember 2019. Þau segja Gráa köttinn hafa tapað viðskiptavild að ófyrirsynju, en erfitt aðgengi hafi valdið þeim orðsporsmissi auk þess sem fækkað hafi í hópi fastra viðskiptavina. Veitingastaðurinn hafi verið í miklum vexti á þeim tíma sem framkvæmdir hófust.

Reykjavíkurborg sagði ósannað orsakasamhengi milli framkvæmdanna og tjónsins sem Ásmundur og Elín urðu fyrir.

Dómari hafnaði öllum málsástæðum Gráa Kattarins, að vegið hafi verið að atvinnufrelsi og eignarétti eigendanna og sýknaði Reykjavíkurborg af öllum kröfum.

„Litli maðurinn tapar alltaf,“ skrifaði Ásmundur í færslu á Facebook í dag þar sem hann lýsti yfir vonbrigðum með dóminn.

Framkvæmdir stóðu yfir frá maí til nóvember 2019 og segjast eigendur Gráa Kattarins hafa tapað mikið af viðskiptum á þeim tíma.
Fréttablaðið/Valli