„Ég sá einn fugl við ísröndina í suðurenda vatnsins, hann var það styggur að ég náði ekki að koma mér fyrir með myndavélina þegar hann flaug að norðurenda vatnsins. Þegar þangað var komið kom í ljós að það voru tveir gráhegrar á bakkanum við vatnið, þorði ég ekki öðru en að taka myndir frá göngustígnum til að styggja þá ekki, þó færið væri full langt en ákvað svo að prufa hvort ég kæmist eitthvað nær. Ég var ekki búinn að ganga mörg skref í átt að þeim þegar þeir flugu í burtu. Finnst frekar ólíklegt um að par hafi verið um að ræða því fuglarnir flugu í sitthvora áttina. Hef heldur ekki heyrt af því að gráhegrar hafi orpið hér á landi."

Sjást ekki oft

Þetta segir Viðar Sigurðsson áhugaljósmyndari sem náði myndum af gráhegrum við Vífilstsaðavatn þann 1.mars síðastliðinn. Það kemur fyrir einungis af og til að gráhegrar láti sjá sig á Íslandi. Viðar sagði fuglana hafa verið stygga.

Myndvélin oftast hangandi um hálsinn

„Ég var búinn að sjá gráhegra við vatnið í vikunni á undan og eins voru fréttir af fuglum í næsta nágrenni og eins við Ástjörn í Hafnarfirði, þannig að það kom svo sem ekkert á óvart að sjá þá við vatnið en myndavélin er oftar en ekki hangandi um hálsinn á gönguferðunum í kringum vatnið.“

Flækingar

Gráhegrar eru flækingar hér á landi, stór vaðfugl af hegraætt en er útbreiddur varpfugl í Evrópu. Á hverju hausti koma hingað gráhegrar sem halda sig við vötn og sjó. Gráhegri er aðallega fiskiæta. Fuglinn er vetrargestur frá Noregi. Stakir fuglar eða fáeinir sjást saman um land allt í fjörum, við ár, læki, tjarnir og vötn þar sem íslaust er og fisks að vænta oftast þó á S- og SV-landi. Gráhegri er afar háfættur og hálslangur, grár með fremur langan rýtingslaga gogg. Þetta má lesa um á Sarpinum, menningarsögulegu gagnasafni.

Lýsingin á fuglinum á Wikipedia er sú að hann sé háfættur og hálslangur og ljós á kvið en með gráa vængi. Svartar flikrur eru á kvið og höfði. Vængirnir eru breiðir og langir. Vænghafið er 155-175 sentimetrar en standandi eru þeir 84-102 sentimetrar á hæð, eftir því hvort hálsinn er uppréttur.

Viðar náði svo mynd af öðrum gráhegranum þegar hann var kominn á flug
Mynd/Viðar Sigurðsson