Landhelgisgæslan mun ekki hafa aðgang að þyrlu í að minnsta kosti tvo daga í þessari viku vegna verkfalls flugvirkja sem nú stendur yfir, það er fimmtudag og föstudag. Óvenju mörg útköll voru um helgina. Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir stöðuna grafalvarlega í samtali við Fréttablaðið.
Eina starfhæfa þyrla gæslunnar, TF-GRÓ á næsta miðvikudag að fara í viðhaldsskoðun sem tekur í það minnsta tvo daga. Það gæti tekið lengri tíma ef eitthvað kemur upp í skoðuninni að sögn Ásgeirs.
Spurður hvort það gæti haft áhrif ef samið yrði í verkfalli flugvirkja í dag eða á næstu dögum segir Ásgeir það á þessum tímapunkti ekki muni breyta neinu. Þyrlan þurfi að fara í skoðun á miðvikudag.
Spurður um áhrif þess að hafa ekki þyrlu segir hann annasamasta tímann yfirleitt vera á sumrin hjá gæslunni þegar fleiri eru á ferð en segir það þó grafalvarlegt að í svartasta skammdeginu sé engin þyrla tiltæk í björgunarstarf á landinu.
Ásgeir bendir einnig á í þessu samhengi að önnur þyrla þeirra, TF-EIR, hafi átt að fara í skoðun og hafi ekki getað það vegna verkfallsins. Þá segir hann að burtséð frá verkfallinu sé mikið uppsöfnuð viðhaldsþörf sem þurfi að taka á þegar verkfallinu lýkur.
Flugvirkjar héldu áfram samningaviðræðum sínum hjá ríkissáttasemjara í morgun. Ekki náðist í formann félagsins, Guðmund Úlfar Jónsson, við vinnslu fréttarinnar.