Veiðar, varðveisla og sala á grænlandshákarli á alþjóðlegu hafsvæði voru nýlega bannaðar á fundi NAFO, fiskveiðisamtaka Norðvestur-Atlantshafsins. Dýraverndarsinnar fögnuðu ákvörðuninni sem tekin var á fundi samtakanna í Portúgal.
Þrettán ríki og ríkjasambönd eru aðilar að NAFO. Ísland, Danmörk (fyrir Færeyjar og Grænland), Noregur, Bretland, Frakkland (fyrir Sankti Pierre og Miquelon), Evrópusambandið, Rússland, Úkraína, Bandaríkin, Kanada, Japan, Suður-Kórea og Kúba.
Árið 2018 samþykktu aðeins Bandaríkin og Evrópusambandið veiðibann á grænlandshákarl en nú hafa allir aðilar samtakanna samþykkt það.
Samkvæmt nýju reglunum er fiskveiðiskipum óheimilt að halda grænlandshákarli jafnvel þó að hann komi fyrir slysni í netin. Fjögur lönd fengu undanþágu frá þessu, Ísland, Noregur, Færeyjar og Grænland, þar sem brottkast er óheimilt. Algengt er að grænlandshákarlar komi fyrir slysni í net íslenskra skipa.
Grænlandshákarlinn dvelur víða í Norður-Atlantshafinu, allt frá Svalbarða að Bretlandseyjum. Hann getur orðið allt að 6 metrar á lengd, er eitraður og heldur sig yfirleitt á talsverðu dýpi.
Hann er þekktur fyrir langlífi en grænlandshárkarlar geta náð hæstum aldri allra þekktra hryggdýra þó að margt sé enn á huldu. Talið er að elstu dýrin séu um 400 ára gömul.