Grænkerar í Face­book hópnum „Vegan Ís­land“ lýsa margir hverjir yfir nokkurri ó­á­nægju með myndir af ber­rössuðum bændum í Austur-Húna­vatns­sýslu þar sem kindur þeirra gegna nokkuð stóru hlut­verki. Benja­mín Sigur­geirs­son, for­maður Sam­taka græn­kera á Ís­landi segir í sam­tali við Frétta­blaðið á­gætt að myndirnar hafi skapað um­ræðu um dýra­vel­ferð.

Inni á hópnum er deilt færslu Morgunút­varpsins á Rás 2 þar sem rætt er við Jón Kristófer Sig­mars­son, bónda á Hæli í Austur-Húna­vatns­sýslu en ber­rössuð upp­á­tækin hófust sem grín á nætur­vakt í fjár­húsi en í Face­book færslu Morgunút­varpsins er gert að því skóna að bændurnir stefni á gerð daga­tals.

„Svo fyndnir og frá­bærir bændur, góðir við dýrin sín og koma fram við þau af svo mikilli virðingu,“ ritar Elísa Snæ og lætur fylgja með bros­kall þar sem kona heldur fyrir and­lit sitt vegna vand­ræða­leg­heita í kaldhæðnisskyni.

Rúm­lega 100 manns bregðast við færslu Elísu og eru net­verjar í hópnum auðsýnilega gáttaðir á upp­á­tæki ber­rössuðu bændanna. „Greyið lömbin! Finnst þetta ó­smekk­legt og alls ekkert fyndið við þetta,“ segir Dúna Arnórs­dóttir og Kristín Helga Karls­dóttir tekur undir. „Þetta er eitt það ó­geðs­legasta sem ég hef séð,“ skrifar hún.

Á­gætt að þetta opni um­ræðuna

Benja­mín Sigur­geirs­son, for­maður Sam­taka græn­kera á Ís­landi, tekur ekki eins sterkt til máls og net­verjar og segir það á­gætt að myndirnar opni og skapi um­ræðu um vel­ferð dýra á Ís­landi.

„Það er auð­vitað verið að nota dýr þarna til að skemmta manninum og ég hef svo sem engar á­hyggjur af því per­sónu­lega að þeir séu naktir og við í Sam­tökum græn­kera hvetjum fólk fyrst og fremst til að borða ekki dýr. En svona í stóra sam­henginu, að ef þetta væri það eina sem væri gert við lömbin og þeim ekki slátrað að þá væri heimurinn betri. Í stóra sam­henginu lít ég ekki á þessi atvik mjög slæmum augum,“ segir Benja­mín.

„Auð­vitað er oft illa farið með dýr í dægra­styttingum fyrir manninn en mér finnst al­var­legra að það eigi að slátra þessum lömbum eftir nokkrar vikur,“ segir Benja­mín sem segist sjálfur eiga mjög erfitt með að gera sér grein fyrir því hvort dýrin hafi verið ó­sátt eða liðið illa við um­ræddar að­stæður.

„Ég hef ekkert allt­of sterka skoðun á þessu, enda erfitt að átta sig á því hvort dýrin hafi verið ó­sátt eða liðið illa við þessar að­stæður. Þau skilja auð­vitað ekkert hvað er í gangi og er alveg sama þó karl­menn séu naktir,“ segir Benja­mín. „Það er bara gaman að því að það skapist um­ræða, sama hvað það er.“