Framkvæmdir við þéttingu byggðar við Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins, eru vel á veg komnar.

Borgarmyndin á þessu svæði breytist til muna við byggingu 47 íbúða í þyrpingu sem nú er tekin að rísa úr jörðu. Auk þess er gert ráð fyrir nýrri fimm hæða skrifstofubyggingu á lóðinni og bílakjallara.

Skrifstofuhúsið rís næst Kringlumýrarbraut, en íbúðahúsið, sem einnig verður á fimm hæðum, stendur á horni Skipholts og Bolholts.

Í skilmálum Reykjavíkurborgar, eiganda lóðarinnar, er kveðið á um að flestar íbúðanna verði eins eða tveggja herbergja og að hartnær fjórðungur skuli vera leiguíbúðir.

Gerð er krafa um þakgarða á fjórðu hæð íbúðarhússins og skulu þeir hafa grænt yfirbragð. „Með því er átt við gras, runna, tré eða annan gróður sem fær að vaxa á þakinu,“ segir í kvöðunum, en jafnframt er opnað á möguleika á sameiginlegan þakgarð fyrir íbúa hússins á fimmtu hæð.