Eitt helsta djásnið á víðáttumikilli suðurströnd Íslands er klettóttur og grasi vaxinn Hjörleifshöfði, skammt frá Vík í Mýrdal. Þetta er 221 m hár tangi úr móbergi sem hefur síðan á 14. öld verið umlukinn biksvörtum Mýrdalssandi. Áður var hann eyja en við landnám orðinn landfastur og lá inn af honum vík sem kallaðist Kerlingarfjörður. Jökulár frá Mýrdalsjökli, sérstaklega við endurtekin Kötluhlaup, hafa síðan borið fram ógrynni sands sem fyllti upp fjörðinn og umkringdi Höfðann sem nú stendur nokkra kílómetra frá sjó. Þannig lengdist sandurinn í síðasta Kötlugosi árið 1918 um 2 km, en við það varð Kötlutangi syðsti oddi landsins í stað Dyrhólaeyjar, og er svo enn. Löngum var búið við Hjörleifshöfða og þótt ekki væri graslendi mikið þá voru þarna mikil hlunnindi af reka, fuglaveiðum og eggjatekju. Eftir Kötlugos 1721 færðist byggðin upp á sjálfan Höfðann og var búið þar til ársins 1936.

Hjörleifshöfði er kenndur við Hjörleif Hróðmarsson, fóstbróður Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmannsins, sem kom að landi við Ingólfshöfða. Þar hafði hann vetrarsetu, en Hjörleifur var á öðru skipi og tók land við Hjörleifshöfða. Þar drápu írskir þrælar hann og flúðu síðan til Vestmannaeyja, þar sem Ingólfur elti þá uppi og drap. Er Hjörleifur sagður jarðaður í svokölluðum Hjörleifshaug efst á Höfðanum.
Ganga á Hjörleifshöfða er frábær skemmtun og flestum fær. Einnig er gaman að ganga í kringum Höfðann en syðst í honum eru sérlega fallegir hellar og móbergsmyndanir. Útsýnið efst er frábært og gaman að horfa eftir hvítfyssandi strandlengjunni, bæði í vestur að Reynisdröngum og að Vatnajökli þar sem Öræfajökul ber hæst. Einnig er einstakt útsýni að Mýrdalsjökli og hinni ógnvænlegu Kötlu sem leynist í iðrum hans. Þarna er auðvelt að sjá fyrir sér hvernig Kötluhlaup hafa og munu æða fram svartan Mýrdalssandinn. Hjörleifshöfði mun örugglega standa áfram af sér slík hamfarahlaup en aðrar ógnir, og það af mannavöldum, ögra tilvist hans og einstöku umhverfi, því nýlega keypti erlent námafyrirtæki jörðina Hjörleifshöfða til að vinna þar sand fyrir steypuvinnslu.
Þótt ekki standi til að taka efni úr Höfðanum sjálfum er ljóst að mannvirki sem fylgja slíkum námagreftri falla engan veginn að umhverfi einstakrar náttúruperlu eins og Hjörleifshöfða sem er staðsettur við einhverja fegurstu strandlengju Íslands – strandlengju sem þegar er einn vinsælasti áfangastaður erlendra ferðamanna hérlendis. Þegar gröfur mæta á svæðið er hætt við að sögufrægur Hjörleifur muni snúa sér við í gröfinni á Höfðanum. Katla gæti líka rumskað og skolað á haf út vanhugsuðum fyrirætlunum, sem byggðar eru á sandi.
