Eitt helsta djásnið á víð­áttu­mikilli suður­strönd Ís­lands er klett­óttur og grasi vaxinn Hjör­leifs­höfði, skammt frá Vík í Mýr­dal. Þetta er 221 m hár tangi úr mó­bergi sem hefur síðan á 14. öld verið um­lukinn bik­svörtum Mýr­dals­sandi. Áður var hann eyja en við land­nám orðinn land­fastur og lá inn af honum vík sem kallaðist Kerlingar­fjörður. Jökul­ár frá Mýr­dals­jökli, sér­stak­lega við endur­tekin Kötlu­hlaup, hafa síðan borið fram ó­grynni sands sem fyllti upp fjörðinn og um­kringdi Höfðann sem nú stendur nokkra kíló­metra frá sjó. Þannig lengdist sandurinn í síðasta Kötlu­gosi árið 1918 um 2 km, en við það varð Kötlu­tangi syðsti oddi landsins í stað Dyr­hóla­eyjar, og er svo enn. Löngum var búið við Hjör­leifs­höfða og þótt ekki væri gras­lendi mikið þá voru þarna mikil hlunnindi af reka, fugla­veiðum og eggja­tekju. Eftir Kötlu­gos 1721 færðist byggðin upp á sjálfan Höfðann og var búið þar til ársins 1936.

Grænn Hjörleifshöfði stingur skemmtilega í stúf við svartan Mýrdalssand og hvítan Mýrdalsjökul.
Mynd/ÓMB

Hjör­leifs­höfði er kenndur við Hjör­leif Hróð­mars­son, fóst­bróður Ingólfs Arnar­sonar, fyrsta land­náms­mannsins, sem kom að landi við Ingólfs­höfða. Þar hafði hann vetrar­setu, en Hjör­leifur var á öðru skipi og tók land við Hjör­leifs­höfða. Þar drápu írskir þrælar hann og flúðu síðan til Vest­manna­eyja, þar sem Ingólfur elti þá uppi og drap. Er Hjör­leifur sagður jarðaður í svo­kölluðum Hjör­leifs­haug efst á Höfðanum.

Ganga á Hjör­leifs­höfða er frá­bær skemmtun og flestum fær. Einnig er gaman að ganga í kringum Höfðann en syðst í honum eru sér­lega fal­legir hellar og mó­bergs­myndanir. Út­sýnið efst er frá­bært og gaman að horfa eftir hvít­fyssandi strand­lengjunni, bæði í vestur að Reynis­dröngum og að Vatna­jökli þar sem Ör­æfa­jökul ber hæst. Einnig er ein­stakt út­sýni að Mýr­dals­jökli og hinni ógn­væn­legu Kötlu sem leynist í iðrum hans. Þarna er auð­velt að sjá fyrir sér hvernig Kötlu­hlaup hafa og munu æða fram svartan Mýr­dals­sandinn. Hjör­leifs­höfði mun örugg­lega standa á­fram af sér slík ham­fara­hlaup en aðrar ógnir, og það af manna­völdum, ögra til­vist hans og ein­stöku um­hverfi, því ný­lega keypti er­lent náma­fyrir­tæki jörðina Hjör­leifs­höfða til að vinna þar sand fyrir steypu­vinnslu.

Þótt ekki standi til að taka efni úr Höfðanum sjálfum er ljóst að mann­virki sem fylgja slíkum náma­greftri falla engan veginn að um­hverfi ein­stakrar náttúru­perlu eins og Hjör­leifs­höfða sem er stað­settur við ein­hverja fegurstu strand­lengju Ís­lands – strand­lengju sem þegar er einn vin­sælasti á­fanga­staður er­lendra ferða­manna hér­lendis. Þegar gröfur mæta á svæðið er hætt við að sögu­frægur Hjör­leifur muni snúa sér við í gröfinni á Höfðanum. Katla gæti líka rumskað og skolað á haf út van­hugsuðum fyrir­ætlunum, sem byggðar eru á sandi.

Kötlutangi er syðsti oddi landsins og Hjörleifshöfði skammt undan.
Mynd/ÓMB