Ein­hver veður­sælasti staður á Ís­landi er Skafta­fell sem þakka má skjóli frá fjall­görðum í vestri og austri, ekki síst Ör­æfa­jökli. Sunnan­áttir bera síðan með sér ríku­lega úr­komu sem á­samt hlýjum sumar­dögum skýra ó­venju fjöl­breyttan gróður. Hann er hvað grósku­mestur á Skafta­fells­heiði sem líkja má við græna gróður­vin sem felur sig milli risa­stórra jökla.

Heiðin til­heyrði áður Skafta­fells­þjóð­garði sem síðar rann inn í Vatna­jökuls­þjóð­garð. Skafta­fell var löngum stór­býli og stóðu bæirnir á lág­lendi neðan Skafta­fells­heiðar. Tíð eld­gos og jökul­hlaup neyddu síðan Skafta­fells­bændur til að færa byggð ofar á heiðina og og hétu síðustu ný­býlin Hæðir, Bölti og Sel. Þetta eru með fal­legustu bæjar­stæðum á Ís­landi þar sem iðja­græn Skafta­fells­heiðin kallast á við snævi þakta tinda Ör­æfa­jökuls.

Svartifoss er einn af fallegustu fossum landsins.
Mynd/ÓMB

Á Skafta­fells­heiði bjóðast frá­bærar göngu­leiðir í allar áttir og er til­valið að hefja gönguna við tjald­stæðið í Skafta­felli. Fyrst er gengið að einum fal­legasta fossi landsins, Svar­ta­fossi, sem státar af fal­lega mótuðu stuðla­bergi sem sagt er að sé fyrir­myndin að loftinu í Þjóð­leik­húsinu. Frá Svar­ta­fossi er stutt ganga að Skafta­fells­bæjunum þremur en torf­bærinn í Seli er í vörslu Þjóð­minja­safnsins. Lengri ganga liggur eftir austan­verðri Skafta­fells­heiði, svo­kölluðum Austur­brekkum, að Sjónarnípu. Þar blasir við ógnar­langur Skafta­fells­jökull, skreyttur myndar­legum mið­lægum urðar­rana og jökul­lóni fremst.

Halda má göngunni á­fram í norður að Glámu. Þarna ætti sprækt göngu­fólk að spá í 1.126 metra háa Kristínar­tinda en af efsta tindinum býðst ein­stakt út­sýni að Skarða­tindum, Hrút­fjalls­tindum og Hvanna­dals­hnjúk. Þeir sem ekki kjósa tinda­brölt geta í staðinn gengið í vestur að Skorum, en þangað má einnig komast af Kristínar­tindum. Út­sýnið er ekki síðra en austan megin á heiðinni og ber mest á ljós­gráum botni Mors­ár­dals og lit­ríkum Skafta­fells­fjöllum.

Þarna glittir einnig í kletta­dranginn Þumal upp af Kjós og á hlýjum degi má sjá og heyra Mors­ár­jökul steypast fram af þver­hnípi innar í dalnum. Einnig sést í há­vaxnasta birki­skóg landsins, Bæjar­staðar­skóg, og enn fjær Skeiðar­ár­jökul, Súlutinda og Lóma­gnúp. Heim er gengið eftir slóða vestan megin á Skafta­fells­heiði í áttina að Svar­ta­fossi og tjald­stæðinu. Stóri hringurinn með Svar­ta­fossi er tæp­lega 20 km langur og nokkrum km lengri með göngu á Kristínar­tinda. Ganga fram og til baka að Svar­ta­fossi frá tjald­stæðinu tekur hins vegar að­eins tæpar tvær klukku­stundir og er því til­valin fyrir barna­fjöl­skyldur.