Ný rannsókn sem vísindamenn við Árósaháskóla gerðu leiddi í ljós að börn sem alast upp í grænu umhverfi eru í 55% minni hættu á því að þróa með sér ýmsar geðraskanir síðar á lífsleiðinni. Rannsóknin er stór en æskuslóðir einnar milljónar Dana voru skoðaðar og til þess voru notaðar gervihnattamyndir frá árunum 1985-2013. Þessi gögn voru borin saman við hættuna á því að þróa með sér einhverja af 16 geðröskunum síðar á ævinni. Niðurstaðan varð þessi sláandi tala, 55% minni líkur á geðsjúkdómum. Í niðurstöðunum var tekið tillit til annarra áhættuþátta eins og til dæmis félagslegrar stöðu og ef það var fjölskyldusaga um geðraskanir.

Vitað er að hávaði, mengun, sýkingar og slæm félagsleg staða eykur hættuna á geðröskunum. Aðrar rannsóknir hafa sýnt að græn svæði í nágrenni fólks ýta undir hreyfingu og félagsleg tengsl og að það geti hjálpað þroska barna. Þetta eru allt þættir sem hafa áhrif á geðheilsu.


Þessi rannsókn sýnir að það eru sterk tengsl á milli lýðheilsu og umhverfis. Þegar börn fá ekki að alast upp í umhverfi sem hefur góð áhrif á þau er verið að ala upp heilu hópana sem líða seinna á lífsleiðinni fyrir það að hafa ekki fengið gott umhverfi í æsku.

Dönsku vísindamennirnir segja að tengingin milli góðrar andlegrar heilsu og aðgangs að grænum svæðum í nærumhverfinu sé eitthvað sem þurfi að taka enn meira tillit til en áður í borgarskipulagi til þess að tryggja grænni og heilbrigðari borgir sem bæta geðheilsu borgarbúa í framtíðinni.