Endurnýjanlegt eldsneyti til samgangna á Íslandi hefur tvöfaldast á aðeins tveimur árum. Er nú svo komið að 5,7 prósent orkunotkunar í samgöngum koma frá endurnýjanlegu eldsneyti.

Þetta kemur fram í skýrslu Orkustofnunar um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum hér á landi í fyrra sem birtist nýlega. Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, segir mikilvægt að menn hugi nú þegar að samsetningu bílaflotans vegna Parísarsamkomulagsins.

Fyrir loftslagsráðstefnuna í París settu þjóðir heims fram aðgerðaloforð þar sem hver þjóð leggur fram drög að því hversu mikið hún ætlar að draga úr losun til 2030. Hreinir rafmagnsbílar eða annars konar ökutæki sem nota græna orku þurfa að verða orðin um hundrað þúsund eftir tólf ár, ætlum við okkur að standa við skuldbindingar okkar. „Eina leiðin til að ná skuldbindingum okkar er að rafvæða samgöngur,“ segir Sigurður Ingi. „Við erum komnir inn á þá tíma að bílar sem keyptir eru nýir munu líklega verða inni í Parísartölfræðinni árið 2030. Þess vegna er orðið mjög mikilvægt að hægja á því að troða glænýjum bensín- og dísilbílum inn á markaðinn. Nú erum við byrjaðir að raða inn í flotann sem mun svo telja í bókhaldinu okkar við Parísarsamkomulagið.“

Í fyrra voru notaðar fimm tegundir græns eldsneytis í samgöngum á landi. Það eru lífdísil, etanól, metanól, metan og raforka. Þrír hinir síðastnefndu eru eingöngu innlendir orkugjafar, það er, aðeins framleiddir hér á landi. Hins vegar er svo komið að olíunotkun bíla er aftur farin að aukast eftir hrunárin. Ástæðuna má vafalaust rekja til fjölgunar erlendra ferðamanna.

„Ástæða þess að endurnýjanlegt eldsneyti hefur aukist svo mikið er að rafbílar eru afar orkunýtnir. Hver rafbíll nýtir orku mun betur en bensínbíll. Þegar raforka er þannig reiknuð sem olíuígildi þá fær rafbíllinn hærri margfeldisstuðul,“ segir Sigurður Ingi. „Því getum við sagt að þegar allir bílar eru orðnir rafvæddir mun heildarorkunotkun í samgöngum snarminnka þótt fjöldi ekinna kílómetra verði sá sami og áður. Rafbílar hafa verið að taka flugið og eru nú að verða um tíu þúsund talsins. Við erum því komin áleiðis að orkuskiptum.“