Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Föstudagur 15. maí 2020
23.01 GMT

Flest ár er píanóleikarinn Víkingur Heiðar á faraldsfæti ríflega helming daganna, en nú á tímum heimsfaraldurs hefur lokun tónleikahúsa og verulega skertar samgöngur gert það að verkum að hann er heima. Sem varð meðal annars til þess að hægt var að láta áralangan draum hans og eiginkonunnar Höllu Oddnýjar um sjónvarpsþætti verða að veruleika.

Við mælum okkur mót í húsakynnum RÚV þar sem þau hjón sitja þessa dagana ásamt Agli Eðvarðssyni, framleiðanda þáttanna sem fengið hafa nafnið Músíkmolar, við síðustu fínpússningu, en fyrsti þátturinn fer í loftið nú á sunnudaginn.

„Þetta eru stuttir þættir, 10 mínútur hver, sem eru teknir upp á sviði Eldborgar en þó eins og við værum bara heima í stofu að spjalla. Egill gerir þetta allt svo ótrúlega vel, það er vandað til hvers skots og búið að hugsa fyrir öllu, það er svo gott að finna að maður er í þannig umhverfi. Þannig getum við líka verið afslöppuð og spjallað, því við vitum að við erum í góðum höndum,“ útskýrir Halla sem er mætt aðeins á undan eiginmanni sínum sem enn situr í framleiðsluherberginu.

Þættirnir sýna þau hjónin á sviði Eldborgar fyrir tómum sal að gera það sem þau gera svo mikið af, ræða um tónlist.

„Við tölum um þessi tónverk sem Víkingur hefur verið að spila og taka upp og það sem hann var með í fingrunum frá nýjustu plötunni, verk Rameau, Debussy og Bach, og svo laumuðust einhverjir gamlir kunningjar með.“

Halla Oddný er sjálf lærð í píanóleik og hefur áður spilað með eiginmanni sínum í sjónvarpi en hlær þegar hún er spurð hvort hún láti ljós sitt skína á því sviði í nýju þáttunum: „Ég lét það alveg vera, við erum með ágætan mann í því,“ segir hún í léttum tón.


„Þannig getum við líka verið afslöppuð og spjallað, því við vitum að við erum í góðum höndum,.


Eins og fyrr segir eru þættirnir teknir upp fyrir tómum sal Eldborgar og viðurkennir Halla að tilfinningin sé sérstök.

„Það fyndna við Eldborg er að þetta er svo þversagnakennt rými og getur alveg virkað sem notaleg stofa ef rétt er haldið á spöðunum.

Við ræðum mikið tónlist okkar á milli, en ég hef sagt í gríni að þetta sé öðrum þræði heimild um þær skelfilegu aðstæður sem við bjóðum syni okkar að alast upp við, með þessum nördalegu foreldrum. En það er svona sem við tölum um músík, það er mjög óformlegt og létt og við erum ekki að kenna neinum tónmennt eða neitt slíkt.

Við segjum líka sögur, eins og til dæmis hvernig spurningum Víkingur stendur frammi fyrir þegar hann er að spila tónlist frá átjándu öld og það er hnakkrifist í sérfræðingasamfélaginu um hverja einustu skrautnótu. Mönnum finnst hann jafnvel vera að fremja einhvers konar helgispjöll með því að spila tónlistina á nútíma Steinway-flygil, því hún er skrifuð fyrir sembal. Það eru heitar tilfinningar, sem er það dásamlega við þetta – fólki er ekki sama.“

Víkingur og Halla gerðu fyrir nokkrum árum tvær þáttaraðir fyrir RÚV sem hétu Útúrdúr og höfðu þau margoft rætt að gera meira í svipuðum anda. „RÚV hafði sýnt því áhuga að fara í slíka framleiðslu með okkur, en Víkingur hefur verið nánast stöðugt erlendis í tónleikaferðum og því ekki gefist tími til neins slíks.“


Blómstrandi baðstofumenning

Að öllu jöfnu hefði það sama verið uppi á teningnum núna, en þar sem Víkingur er landfastur hér kom upp sú hugmynd hjá þeim hjónum að ráðast í verkefnið.

„Mér finnst þessi baðstofumenning sem hefur fengið að blómstra á heimilum fólks í þessu sam­komu­banni svo falleg, og þetta er liður í því að ýta undir hana. Ég hef heyrt af fjölda fullorðins fólks sem hefur farið að æfa sig aftur á píanó. Maður hefur orðið vitni að mörgu skemmtilegu sem fólk hefur farið að sinna fyrir sjálft sig, enda höfum við öll mikla þörf fyrir eitthvað fallegt og uppbyggilegt í þessu ástandi.

Þó svo að slakað hafi verið á samkomubanninu eru enn ýmis höft í gildi og svo eru það allir þessir viðkvæmu hópar sem enn eru í óvissu. Nú vitum við ekkert hvernig þetta verður, fólk er enn áhyggjufullt þó að brúnin sé farin að lyftast eftir þennan slag. Við höfum trú á að falleg músík sé góð fyrir sálina í fólki og finnst þetta því kjörið tækifæri.“

Halla bendir á að mikið hafi verið um beint streymi á tónlist.

„Það er frábært og mikil gróska og kraftur, en að sama skapi nær það bara ákveðið langt að horfa á beint streymi sem einhver tekur upp á símann sinn með misjöfnum hljóðgæðum. Okkur fannst alla vega rosalega gaman að geta gert hlutina með góðri hljóðupptöku, frábærri upptökustjórn og þessum rosalega flottu fagmönnum á öllum póstum.

Þótt það sé mikils virði að geta brugðist hratt við og geta gert hlutina hráa, þá eru ákveðin gæði í þessu sem alla vega ég var farin að sakna. Þetta á auðvitað ekki að koma í stað þess að fara á tónleika en það er kannski líka ágætt að fólk finni fyrir að það sakni þess að vera á staðnum.“


Gegndarlaust þakklæti


Það er augljóslega mikið um tónlist á heimilinu en ætli það sé aðeins klassík?

„Við hlustum mikið á klassík, það væri óheiðarlegt að neita því. En við hlustum líka á djass og ýmislegt popp og rokk, en ég ætla ekkert að láta eins og við séum eitthvað meira kúl en við erum,“ segir Halla og brosir.

Halla segir samkomubannið hafa lagst nokkuð vel í fjölskylduna sem nú hefur verið sameinuð á Íslandi vikum saman.

„Við erum þakklát fyrir að hafa ekki þurft að fara í sótt­kví og að enginn í okkar innsta hring hefur veikst. Maður verður að muna það. Við eigum líka vini víða um heim og þegar maður horfir upp á fólkið sem má ekki fara út af heimilum sínum er þakklætið, fyrir að vera ekki fastur inni í illa loftkældri lítilli íbúð í stórborg, gegndarlaust.“


Hálft árið á faraldsfæti

Víkingur er sestur hjá okkur og eru þau hjón sammála um að nóg hafi verið að gera undanfarnar vikur.

„Við höfum bæði haft nóg að gera þó að ég hafi ekki verið að umpotta eða baka súrdeigsbrauð eins og margir. Þetta verkefni hefur tekið sinn tíma og svo hefur Víkingur verið að streyma ýmsu og ég þá verið kameru- og tæknimaður. Svo hefur sonurinn verið alfarið heima, enda ekki kominn inn á leikskóla og því í nægu að snúast,“ segir Halla.

„Hliðarverkunin af þessu ástandi er svo að Víkingur hefur fengið að vera heima hjá fjölskyldunni og maður er þakklátur fyrir það,“ segir Halla.


„Hliðarverkunin af þessu ástandi er svo að Víkingur hefur fengið að vera heima hjá fjölskyldunni og maður er þakklátur fyrir það."


„Ég var að telja þetta, ég held ég hafi verið einhverja 160-70 daga erlendis árið 2019 svo þetta var nánast annar hver dagur. Samt var ég óvenju mikið heima því við eignuðumst barn,“ segir Víkingur og það er augljóst að hann hefur notið þessa óvænta frís vel.

„Fólk var mjög bratt þó að það hafi átt að vera augljóst í hvað stefndi, þar til allt í einu allt lokaðist. Ég var að spila í Amsterdam dagana 6. og 7. mars fyrir fullum sal Concertgebouw, sem ég held að taki rúmlega 2.000 manns í sæti og vikuna á undan var ég að spila í París.

Það mátti heyra á fólki að það hélt í mesta lagi að það yrði tekin pása fram í lok apríl.

Umræðan var allt önnur og það var ekkert augljóst að tónleikar væru að fara að hætta í Concertgebouw, en svo fimm dögum eftir að ég spilaði þar var bara búið að loka.

Ég átti að vera með heimsfrumflutning í Helsinki og heilmikið af stórum viðburðum sem ég hlakkaði mikið til og var búinn að undirbúa lengi. Þegar þetta hverfur skyndilega allt er það sjokk, praktískt sjokk, skyndilega er ég bara atvinnulaus, með engar tekjur en fullt af skuldbindingum eins og allir. En maður fær ákveðið perspektív við að sitja heima við hestaheilsu að hugsa: Hvað á maður að gera?“


Spilar vikulega í tómri Eldborg


Eins og fyrr segir höfðu þættirnir verið í umræðunni hjá þeim hjónum í mörg ár, en Víkingur aldrei verið nógu lengi á landinu til að hægt væri að láta hugmyndina verða að veruleika.

„Nú kom það óvænt upp að ég er á landinu í langan tíma, en þá er auðvitað ekkert sjálfsagt að það sé hægt að láta þetta gerast svona hratt. Það er svolítið íslenskt og hluti af sjarma Íslands að svona lagað sé mögulegt.

Að við skulum hafa fengið inni í Hörpu, sem að mínu mati er tónlistaraltari Norður-Evrópu, er stórkostlegt, hvað þá að við séum þar þremur vikum eftir að við látum okkur dreyma um það. Þetta eru stórar stofnanir sem við erum að vinna með, RÚV og Harpa, sem maður hefði búist við að væru þunglamalegar, en þær tóku okkur inn með hraði sem er svo fallegt og ég verð að gefa yfirmönnum þessara stofnana hrós fyrir það.“

Víkingur viðurkennir að það sé skrítin tilfinning að spila fyrir tómum Eldborgarsal. Hann ætti þó að vera farinn að venjast því, enda hefur hann undanfarið verið staðarlistamaður í þættinum Front Row í breska ríkisútvarpinu, BBC, sem teknir eru upp í Hörpu vikulega.

„Það er að mörgu leyti sérstakt verkefni, því það er stærsta públíkum sem ég hef spilað fyrir en einhverjar milljónir manna hlusta á þáttinn, en á sama tíma er ég í galtómum sal. Þetta er skrítin þversögn. Ég fíla það reyndar mjög vel og ætti náttúrlega bara að vera á baðsloppnum því stemningin er svo heimilisleg,“ segir Víkingur í léttum tón.


„Það er að mörgu leyti sérstakt verkefni, því það er stærsta públíkum sem ég hef spilað fyrir en einhverjar milljónir manna hlusta á þáttinn, en á sama tíma er ég í galtómum sal."


„Ómurinn í salnum er auðvitað allt annar þegar hann er tómur. Þetta er svolítil Palli var einn í heiminum fílingur,“ segir Víkingur og er handviss um að þættirnir muni eiga sérstakan stað í hjarta þeirra beggja seinna meir, enda heimild um undarlega tíma.

Hann er spurður hvort það hafi alltaf verið hugmyndin að taka þættina, sem hafa verið svo lengi á teikniborðinu, upp í Eldborgarsal.

„Nei, glætan, það er ekki séns. Þessi salur er aldrei laus nema kannski klukkan sex á aðfangadagskvöld og mögulega á gamlárskvöld. Það að maður fái svona sal helst í hendur við þessa undarlegu tíma.“


Vilja ala soninn upp á Íslandi

Þau hjón bjuggu um árabil í Berlín og eru þar enn með annan fótinn, en nú er stefnan að pakka saman og koma alfarið heim, enda bæði sammála um að viðhorfið hafi breyst við komu sonarins fyrir rúmu ári.

„Við þorum reyndar ekki að segja upp leigunni, því það er algjörlega óljóst hvenær við komumst út til að pakka niður búslóðinni. Þar er aðalflygillinn okkar og mikið af tónlistarnótum og fleiru,“ segir Víkingur.

Það er dásamlegt að geta haft ömmur og afa og aðra ættingja í nálægð, en þegar ég var í Berlín var ég oft ein á meðan Víkingur var á tónleikaferðalögum,“ segir Halla.

„Ég held að það sé mjög algengt að þegar fólk eignast barn sjái það hvað Ísland er æðislegt og vilji bara vera hér í þessu umhverfi, með tengslin við allt þetta góða fólk sem maður á að.

Það er líka eitthvað við það að setja barnið á íslenskan leikskóla og inn í þetta pínulítið villta, en skemmtilega samfélag. Ef maður ber það saman við til dæmis Berlín, sem er líka frábær barnaborg, þá eru svo margir kostir sem Ísland hefur fram yfir.

En við erum auðvitað Íslendingar, svo maður er ekki hlutlaus, en það eru vissulega styttri boðleiðir. Það er einhver villimennska og frelsi sem maður vill ekki alveg hefla af. Það er eitthvert frelsi í þessari menningu, eins og hún er fáránlega gölluð líka. Það er ómótstæðilegt,“ segir Víkingur og heldur áfram:

„Þýska skólakerfið, án þess að ég vilji gagnrýna mikið, er þannig uppsett að foreldrar verða að ákveða mjög snemma, með barninu eða fyrir það, hvað það vill leggja fyrir sig. Það eru strax í kringum ellefu ára aldur barnsins teknar stórar ákvarðanir. Þetta finnst mér hrikalegt. Ég á vini sem eiga börn á þessum aldri sem eru að fara í svona samræmd próf sem ákvarða framtíð þess. Mamma barnsins er bara hætt að vinna svo þau geti kennt honum að flytja fyrirlestra og svo framvegis.“

„Gömlu hverfin í Berlín hafa yngst upp mjög hratt, svo það er komin rosaleg samkeppni,“ segir Halla.

Erum bara svo eftir á

Víkingur og Halla hafa verið par frá því um tvítugt eða í um fjórtán ár og eignuðust sitt fyrsta barn fyrir rétt rúmu ári.

„Það hefur bara verið svo mikið að gera,“ segir Halla en Víkingur bætir við: „Við erum bara svo eftir á.“

Þau hlæja bæði en eru sammála um að þau hafi viljað vera búin að koma undir sig fótunum áður en þau bættu við barni.

„Sjálfur er ég glaður að við eignuðumst ekki barn fyrr – líf okkar hefur að mörgu leyti verið svolítið kreisí. Ég hef fyrst núna smá vald yfir lífi mínu, til að geta verið pabbi.

Það tekur svo langan tíma, svo mörg ár, að byggja upp ferilinn. Ég þurfti lengi vel að segja já við öllu. Eitt er að fá að spila með þessum geggjuðu hljómsveitum og svo framvegis, en hitt er að fá að gera það þegar maður vill og þá tónlist sem maður vill.

Það kemur miklu seinna, það er fyrst núna sem ég hef náð því. Þá getur maður farið að skipuleggja líf sitt betur, að fá að vera pabbi og vera ekki alltaf með hjartslátt yfir næstu viku. Nú getur maður farið að minnka stressfaktorinn aðeins,“ segir Víkingur, ákveðinn í að einfalda líf sitt í framtíðinni.

„Ætlunin er að spila þéttari túra, fleiri tónleika á skemmri tíma. Nú er ég að skipuleggja tónleika árin 2022 og 2023 og jafnvel 2024, enda bókað langt fram í tímann í þessum bransa.“


„Ég þurfti lengi vel að segja já við öllu. Eitt er að fá að spila með þessum geggjuðu hljómsveitum og svo framvegis, en hitt er að fá að gera það þegar maður vill og þá tónlist sem maður vill."


Eins og fyrr segir hefur verið í nægu að snúast hjá þeim hjónum undanfarnar vikur, ekki síst þar sem þau voru að kaupa sér hús og flytja.
„Það er ágætt fyrir svona ofvirkan mann eins og mig að hafa nóg við að vera þessa dagana og það hefur þurft að gera eitt og annað.“
Aðspurður hvort hann sé handlaginn svarar Víkingur ákveðið neitandi, en Halla bætir við: „Það væri mjög vond forgangsröðun að setja þig í að smíða. Það er aðeins meira í húfi en fyrir marga aðra sem gætu klemmt sig.“

„Ég er ekki verkheppinn. Við notum ekki orðið verklaginn heldur verkheppinn,“ segir hann í léttum tón.

Halla: „Það er frekar ég sem tek naglana. En ég er meiri varfærnismanneskja. Ég vil hugsa málið og stundum svæfi ég bara hlutina í nefnd á meðan Víkingur vill meira hjóla í þá.“

Víkingur: „Ætli ég sé ekki óþolandi manneskjan í sambandinu á meðan hún er sú þolandi.“

Halla: „Við erum óþolandi hvort á sinn hátt. Það er fallegt jafnvægi í þessu.“

Víkingur: „Ég er mjög hvatvís og ef ég fæ hugmynd vil ég kýla á hana strax.“

Halla: „Ég finn oft góðum hugmyndum ýmislegt til foráttu og er efasemdamanneskja í mér.“

Víkingur: „Þú stoppar líka margt sem þarf að stoppa.“

Þetta er tími tilrauna

Verkefni undanfarinna vikna hafa einnig verið í tónlistinni, þrátt fyrir að tónleikahald hafi legið niðri og það er augljóst að allir leggjast á eitt til að finna nýjar leiðir til að koma listinni til fólksins.


„Ég finn oft góðum hugmyndum ýmislegt til foráttu og er efasemdamanneskja í mér.“ Halla


„Ég tók þátt í Piano day hjá Deutsche Grammophon, þá spilaði ég og Halla tók það upp á símann heima í stofu. Þetta var 15 mínútna upptaka og ég var ekki einu sinni með míkrófón. Svo voru 850 þúsund manns sem horfðu á þetta, án þess að maður hefði lagt mikið í pródúksjónina,“ segir Víkingur hissa.

„Fram undan er svo verkefni sem ég held að aldrei hafi verið gert áður. Ég er að fara að taka þátt í píanókonsert með Fílharmóníuhljómsveit Bergen í Noregi, en ég spila einleikspartinn í Hörpu. Þetta verður sem sagt píanókonsert á milli landa.

Ég veit ekki til þess að það hafi verið gert áður. Það þarf svona aðstæður til þess að fólk þori að gera svona hluti. Þetta er tími tilraunanna.

Þetta er rosalega skrítið. Að einhverju leyti svolítið einmanalegt, en að mörgu leyti líka svo frelsandi. Að vera alltaf heima og þurfa ekki að fara klukkan fimm upp í Leifsstöð. Maður aðlagast hratt og ég fæ alveg viðbrögðin sem ég þarf í gegnum þessi verkefni sem ég hef verið í. Það er magnað hvernig bransinn hefur aðlagað sig.“

„Þú hefur nú samt saknað þess að fara á svið,“ segir Halla.

„Já, maður þrífst náttúrlega á þessu,“ svarar Víkingur.

„Það er gott að vera jákvæður en það er líka gott að finna að maður saknar þess sammannlega,“ segir hún. „Ég held að þessi reynsla verði að mörgu leyti góð fyrir fjölskyldulífið. Við þurfum ekki að fljúga svona mikið eða vera sífellt föst í umferð á morgnana, við erum búin að læra að það er hægt að vinna mikið meira heima og það er gott fyrir börnin að foreldrarnir séu meira heima,“ segir hann að lokum.

Athugasemdir