Hópur banda­rískra skurð­lækna græddi fyrir skömmu nýra úr svíni í heila­dauðann ein­stak­ling sem var í öndunar­vél. Þeir vonast til að með þessu sé stigið stórt skref til að draga úr skorti á líf­færum til líf­færa­gjafar.

Lifrin var úr svíni sem hefur verið erfða­breytt til að koma í veg fyrir að líkaminn hafni í­græðslunni. Að­gerðin stóð í um tvo tíma og var gerð á spítala í New York.

Að henni lokinni var fylgst náið með því hvernig líkaminn tók við nýranu og fjöldi prófa gerður.

Þróaðasta að­gerð hingað til

„Við sáum að nýrað starfaði nánast eins og í­græðsla með nýra úr mann­eskju, það virðist vera svo gott sem sam­rýman­legt þar sem það gerði allt sem venju­legt nýra úr manni gerir. Það virkaði eðli­lega, og virtist ekki hafnað,“ segir Dr. Robert Mont­gomery sem fór fyrir að­gerðinni í sam­tali við BBC World Tonight.

Skurð­læknarnir hafa ekki veitt öðrum vísinda­mönnum að­gang að gögnum sínum eða gefið þau út. Það stendur þó til. Sér­fræðingar segja að að­gerðin sé sú þróaðasta sem gerð hefur verið á þessu sviði fram til þessa. Gerðar hafa verið sam­bæri­legar að­gerðir á öðrum tegundum prímata en þetta er í fyrsta sinn sem það er gert á mann­fólki.

Að nýta líf­færi úr svínum til í­græðslu í fólk er ekki nýtt af nálinni og eru hjarta­lokur úr þeim mikið nýttar til að græða í fólk. Líf­færi úr svínum eru einnig mörg svipuð að stærð við þau sem finnast í mann­fólki.