Nitján ára gömul Bandarísk kona í Iowa-fylki að nafni Madison Russo hefur verið handtekin og ákærð fyrir að græða fúlgur fjár með því að þykjast vera með krabbamein á samfélagsmiðlinum TikTok og fjáröflunarsíðunni GoFundme.

Russo er talin hafa grætt rúmlega 37 þúsund dollara, sem jafngildir rúmum fimm milljónum, frá 439 manns með því að segjast vera með æxli á stærð við amerískan fótbolta.

New York Post fjallar um málið og tekur fram að Russo gæti átt yfir höfði sér tíu ára fangelsisdóm fyrir þjófnað.

Fram kemur að í nýliðnum janúar hafi raunveruleg hlið málsins komist á yfirborðið, þegar heilbrigðisstarfsfólk hafði samband við stjórnvöld eftir að hafa tekið eftir mörgum holum í frásögn Russo.

Þá hafa einhverjir TikTok-notendur rýnt í myndbönd hennar og bent á að þversagnir hvað varða heilsu hennar og meint meðfeðr hafo verið til staðar. Auk þess hefur því verið haldið fram að Russo hafi stolið myndefni frá raunverulegum krabbameinssjúklingum og notað sem sitt eigið.