Þorsteinn V. Einarsson, forsprakki samfélagsmiðlaherferðarinnar #karlmennskan sem snýst um að segja staðalímyndum um karlmennsku stríð á hendur og vakti mikla athygli fyrr á árinu, segir að fréttir af kvenfyrirlitningu í samræðum þingmanna á Klaustur bar komi sér ekki á óvart en þar komi eitruð karlmennska sem sé innvinkluð í samfélagsgerðina berlega í ljós. 

„Þetta eru klárir menn og þeir hafa sýnt að þeir geta alveg talað á réttan hátt og stutt rétt málefni en gera það svo ekki þegar enginn fylgist með þeim og um það snýst jafnréttisbaráttan og femínisminn að ná að breyta þessum grunngildum. Að fólk nái að gera sér grein fyrir eigin forréttindum í þessu samfélagi og þessir menn, sem eru á toppi samfélagsins, gera það augljóslega ekki. 

Þegar þú ert í svona stöðu og þeim embættum sem þeir eru í, þá setjum við augljóslega sem samfélag meiri kröfu á slíka menn að þeir séu ekki með þessi viðhorf. Því að við búum við samfélagsgerð sem elskar karla og elskar karllæg gildi og fyrirlítur kvenlæg líkt og kemur í ljós í þessum samræðum og nákvæmlega þetta er það sem við köllum feðraveldi.“

Birtingarmynd feðraveldisins

Nú hafa bæði Gunnar Bragi og Sigmundur Davíð fengið klapp á bakið á alþjóðavettvangi fyrir feminísk viðhorf, hvers vegna fer drykkjusamsætið fram með þessum hætti?

„Michael Kimmel, þekktur femínisti segir að forréttindin eru ósýnileg þeim sem þau hafa. Og mér finnst þetta eiga svo vel við í þeirra tilfelli því þeir virðast ekki gera sér grein fyrir hversu mikil forréttindi þeir hafa.    og virðast ekki átta sig á því að þetta er það sem femínisminn gengur út á að berjast gegn og þetta er þetta feðraveldið.

Þetta birtist í þessu klassíska „lockerroom“ spjalli sem átti sér stað þarna. Þar sem menn upphefja sína eigin karlmennsku meðal annarra karlmenna til þess að upphefja sjálfa sig og sitt eigið egó og til þess að sýna hversu miklir menn þeir eru og þetta er alveg klassísk eitruð karlmennska. Að gaspra um völdin sem maður hefur og ætlar að útdeila og fyrirlíta konur fyrir útlitið. Níða aðra til að upphefja sjálfan sig.“

Vita allir að við eigum ekki að gera lítið úr konum

Þorsteinn segir að í dag viti flestir í grunninn hvaða hugmyndir jafnréttisbaráttan snúist um en fæstir geri sér grein fyrir því hversu sterk eitruð karlmennska er í þeirri samfélagsgerð sem við búum við og komi því sjaldan í ljós á opinberum vettvangi.

„Það kunna allir lingóið betur í dag, það vita allir að við eigum ekki að gera lítið úr konum og að við eigum ekki að tala um að bleikt eitthvað sé bara fyrir stelpur, við vitum þetta flest alveg, en í raun og veru þegar þú ferð inn í samtalið eru þessi viðhorf ótrúlega kraumandi og ráðandi. Þessi rótgrónu íhaldsömu viðhorf til kyns, trúin að konur séu fæddar til að vera sætar, hugsa um börn og borða salat en strákar fæddir til að vera við völd og gera og græja. Og ef strákur sýnir einhverja kvenlega eiginleika er hann um leið níddur niður. Þetta er skaðlegt, ekki bara fyrir konur heldur er þetta eitrað fyrir stráka og karlmenn, heftir frelsi þeirra og tækifæri.

Þessi eitraða karlmennska finnst mér liggja og nærast á samfélagsgerðinni. Þetta er svo ótrúlega persónulegt. Nátengt sjálfsmynd manns og grunngildum. Þess vegna er það svo aumt yfirkrafs að segja að áfengið hafi fengið þig til þess að tala svona eða að akkúrat við þessar tilteknu aðstæður hafi verið fyrir svo ótrúlega tilviljun að þú hafir verið tekinn upp í eina skiptið sem þú viðhafðir svona viðhorf, það stemmir bara ekki.“