Valdi Frétta­blaðið sem efni í há­skóla­rit­gerð

Kristján Hjálmars­son, fram­kvæmda­stjóri H:N Markaðs­sam­skipta, kveðst lík­lega einn af fimm­tán blaða­mönnum sem ráðnir voru á Frétta­blaðið frá fyrsta degi. „Við byrjuðum í Þver­holtinu, í gömlu Ísa­foldar­prent­smiðjunni. Ætli við Tinni Sveins­son, sonur annars eig­anda blaðsins, höfum ekki verið með þeim yngstu? Ég var að minnsta kosti með minnstu starfs­reynsluna sem blaða­maður.“

Kristján kveðst hafa á­kveðið að starfa við fjöl­miðla þegar hann var plötu­snúður í grunn­skóla. „Um alda­mótin stofnuðum við nokkrir fé­lagar heima­síðuna 01.is sem naut mikilla vin­sælda hjá ungu fólki. Svo sótti ég um vinnu á Frétta­blaðinu, hélt utan um sjón­varps­dag­skrána og skrifaði í­þrótta­fréttir, en blaðið fór svo snemma í prentun á kvöldin að við þurftum að treysta á texta­varpið eða hús­verði í í­þrótta­húsum til að fá úr­slit. Jafn­vel birta hálf­leiks­tölur. Kappið var mikið hjá öllum og þetta var ó­trú­lega skemmti­legur tími því við vorum að vinna frum­kvöðla­starf með því að gefa út frí­blað. Róbert Reynis­son var eini ljós­myndarinn og sá um mynd­vinnslu líka, hann vann myrkranna á milli.“

Kristján kom að öllum hlutum Fréttablaðsins nema leiðurum á ferli sínum þar og skrifaði líka í Birtu.
Fréttablaðið/Valli

Að sögn Kristjáns valdist vel inn á rit­stjórnina. „Þar var rosa­lega góð stemning, Gunnar Smári og Sigur­jón M. Egils­synir voru auð­vitað prímu­s­mótorar. En að­stæður til efnis­öflunar voru aðrar en í dag, er­lent sjón­varp var yfir­leitt í gangi og við horfðum á Tví­bura­turnana falla í beinni út­sendingu 11. septem­ber 2001. Þá var ekki farið á Inter­netið að fræðast um turnana heldur hlaupið út í bóka­búð að kaupa bækur.“ Til marks um sam­stöðuna í starfs­hópnum vildu lang­flestir halda á­fram þegar blaðið hafði verið endur­reist eftir gjald­þrot. En Kristján rifjar upp að auð­vitað hafi verið leiðindi þegar full­trúar sýslu­manns komu að inn­sigla.

Frétta­blaðið átti vel­gengni að fagna eftir að það komst aftur á skrið og Kristján minnist könnunar í mars 2003 sem sýndi það með mestan lestur dag­blaða á landinu. Það var sigur. Hann telur það tvennu að þakka, frídreifingunni og að blaðið náði vel til yngra fólks.

Stofnun og gengi Frétta­blaðsins varð Kristjáni efni í há­skóla­rit­gerð. „Ég átti eftir að klára BA-verk­efnið í stjórn­mála­fræði við HÍ og endaði á að skrifa um Frétta­blaðið, undir hand­leiðslu Þor­björns Brodda­sonar prófessors. Ég lagði grunn að því í há­skóla í Jön­köping í Sví­þjóð þar sem Lars Åke Äng­blom, prófessor í fjöl­miðla­fræði og á­huga­maður um frí­blöð, hvatti mig til þess. Þetta segir sína sögu um hversu vænt mér þótti – og þykir – um Frétta­blaðið. Ég var þar í þrettán ár og alltaf hélst góður starfs­andi þar, sama hvað gekk á,“ segir Kristján og kveðst hafa unnið við alla hluta blaðsins nema leiðara. „Ég skrifaði líka í kven­tíma­ritið Birtu, sem Steinunn Stefáns­dóttir rit­stýrði. Svo var ég frétta­stjóri á visir.is síðasta árið.“

Baráttuandi starfsfólksins hélt lífi í blaðinu fyrsta árið

Brynjólfur Þór Guð­munds­son, sem nú er frétta­maður á Ríkis­út­varpinu, var í upp­hafsliði Frétta­blaðsins fyrir 20 árum. „Ég var ný­byrjaður í frétta­mennsku. Var búinn að vera hálft ár á net­miðlinum visir.is sem var í eigu sömu manna og Frétta­blaðið og tengdist bæði DV og Degi. Rit­stjórnir net­miðilsins og Frétta­blaðsins voru sam­einaðar viku áður en blaðið byrjaði að koma út og ég fór að skrifa í það. Var mest í al­mennum fréttum, um tíma í stjórn­mála­f­réttum og stundum vakt­stjórn þar til ég hætti eftir fjögur ár.“

„Við starfsfólkið vorum sannfærð um ágæti verkefnisins,“ segir Brynjólfur.
Fréttablaðið/Anton Brink

Starfs­liðið saman­stóð af ungu fólki og nokkrum reynslu­boltum inn á milli, að sögn Brynjólfs. „Við vorum að gera eitt­hvað nýtt sem dreif okkur á­fram og vorum sann­færð um á­gæti verk­efnisins. Annars held ég að Frétta­blaðið hefði lognast fljótt út af, það var svo illa fjár­magnað. Við fengum ekki út­borgað á réttum tíma nema einu sinni fyrstu fjór­tán mánuðina og þá upp­götvaði það enginn fyrr en þriðja dag mánaðarins því það bjóst enginn við því. Það var 3. janúar 2002. Einn vinnu­fé­laginn var hund­fúll yfir ára­mótin því hann hélt hann ætti ekki krónu og komst ekki á djammið, honum hafði ekki dottið í hug að at­huga það. Sigur­jón M. Egils­son frétta­stjóri kom með klósett­pappír að heiman handa mann­skapnum. Það er til marks um hvað staðan var erfið. Fólkið sem sá um þrifin hætti, það fékk ekki laun.

Frétta­blaðið fór á hausinn eftir árs rekstur en vegna þess hve andinn var góður í starfs­hópnum héldu næstum allir á­fram eftir að það var endur­reist, að sögn Brynjólfs.

„Flestir voru þar enn þegar það varð mest lesna dag­blað landsins, lík­lega í mars 2003. Þá var fagnað og það var í fyrsta skipti, svo ég viti til, sem Frétta­blaðið borgaði fyrir djamm sem stóð fram eftir nóttu. Gummi Stein­gríms spilaði á harmóníku og ætli Trausti Haf­liða hafi ekki verið á gítarnum? Ég tel að rit­stjórnar­stefna Frétta­blaðsins hafi svín­virkað en mín skoðun er sú að það hefði aldrei náð að verða árs­gamalt ef ekki hefði verið fyrir bar­áttu­anda starfs­fólksins.“

Safnaði mörgum erlendum vefslóðum og fann nýjar fréttir þar

Guð­steinn Bjarna­son var meðal fyrstu starfs­manna Frétta­blaðsins en fór yfir á Fiski­fréttir árið 2017. Hann kveðst hafa byrjað blaða­manns­ferilinn á Tímanum sem breyttist í Dag Tímann – og síðan Dag – en verið boðið starf á Frétta­blaðinu, sem var í start­holunum þegar Dagur fór á hausinn vorið 2001. Eig­endur voru þeir sömu, Eyjólfur Sveins­son og Sveinn R. Eyjólfs­son.

„Ég held ég hafi byrjað að tína inn ein­hverjar menningar­fréttir og við­burði og sinna er­lendum fréttum,“ segir Guð­steinn um verk­efni sín á Frétta­blaðinu. „Við hófum störf í gamla Hamp­iðju­húsinu, fórum svo á Suður­götuna og síðan í Skafta­hlíðina,“ rifjar hann upp.

Guðsteinn var mest í erlendum fréttum og þótti verst að koma ekki Norðurlöndunum og Grænlandi meira að.
Fréttablaðið/Ernir

Mest kveðst Guð­steinn hafa sinnt er­lendu fréttunum meðan hann var á blaðinu. „Ég réði mér mikið sjálfur þar, var kannski svo­lítið í mínum heimi en ekki alveg í hringiðu hins ís­lenska frétta­hasars.

Framan af var Goog­le-leitar­vélin ekki eins öflug og nú og ég safnaði fjöl­mörgum er­lendum vef­slóðum sem ég fann nýjar fréttir á. Verst var hversu erfitt var að afla mynda, sér­stak­lega frá Norður­löndunum og Græn­landi, það stoppaði oft fréttir þaðan sem ég vildi leggja á­herslu á. Mér skildist mynda­veitur þar vera of dýrar fyrir út­gáfuna. Við vorum bara með AP og AFP líka. Í byrjun var ég líka að tína inn frétta­skeyti þaðan og um­orða þau. Netið var ekki eins full­komið og síðar varð.“

Einar Karl Haralds­son var rit­stjóri til að byrja með, að sögn Guð­steins. „Gunnar Smári hafði tekið þátt í hug­mynda­vinnu út­gáfunnar og var í öllu, meðal annars um­brotinu. Hann var gríðar­lega á­huga­samur og hélt reglu­lega fræðslu­fundi. Fljót­lega tók hann við rit­stjórninni og Jónas Kristjáns­son kom að henni á tíma­bili.“

Að taka þátt í að búa til nýtt dag­blað segir Guð­steinn hafa verið gaman. „Það var frá­bær andi í hópnum sem að því stóð – en Frétta­blaðið fór á hausinn eftir ár, maður fann vel fyrir að­draganda þess, launa­greiðslur drógust á langinn og ó­vissan var mikil.

Ég var við­búinn því að fara í eitt­hvað annað en fyrst hægt var að halda á­fram þá gerði ég það. Enda skemmti­legt að vinna með fólkinu þar og reyndar var alltaf gaman á Frétta­blaðinu nema þegar upp­sagna­hrinur gengu yfir.“