Rúm­lega tíu þúsund al­mennir borgarar hafa dáið eftir um­sátur Rússa í Maríu­pol, samkvæmt borgarstjóra. Í sam­tali við The Associa­ted Press sagði hann að dauðs­föllin gætu nálgast tuttugu þúsund og að göturnar væru „teppa­lagðar“ af líkum eftir margra vikna um­sátur Rússa.

Vadym Boychen­ko borgar­stjóri sakaði rúss­neska her­menn um að stöðva alla mann­úðar­að­stoð inn í borginna í þeim til­gangi að fela hroða­verkin frá um­heiminum.

Borgin hefur verið um­setin vikum saman og orðið fyrir hörðum á­rásum af hendi Rúss­lands. Sam­skipti við um­heiminn hafa verið mjög af skornum skammti og fáir hafa komist inn í borgina.

Á­rásirnar hafa verið svo linnu­lausar að í­búar hafa ekki haft tæki­færi til að sækja lík fallinna af götunum. Boychen­ko segir rúss­neska her­menn nú keyra um borgina í lík­brennslu­bílum og fjar­lægja líkin.

Manneskja gengur um gjöreyðilagða götu í hverfi Maríupol fyrir helgi.
Fréttablaðið/Getty

Upp komst um hóp­morð í bænum Bútsja fyrir utan Kænu­garð þegar rúss­neskir her­menn yfir­gáfu svæðið fyrr í mánuðinum og hefur sú upp­götvun haft í för með sér endur­nýjaða öldu for­dæmingar á inn­rás Rúss­lands.

Stanslausar árásir og hart barist

Sam­kvæmt Boychen­ko hafa 120 þúsund í­búar Maríu­pol lítinn eða engan að­gang að mat­vörum, vatni, hita eða sam­skipta­tækni. Hann segir engan geta yfir­gefið borgina nema það fari fyrst í gegnum rúss­neskar „síunar­búðir“, eins og hann kallar þær. Sumt fólk sé sent þaðan í fjar­lægustu og fá­tækustu hverfi Rúss­lands og önnur sett í sér­út­búin fangelsi.

Varnar­mála­ráð­herra Úkraínu hélt því fram ný­lega að efna­á­rás hafi verið gerð á borgina en vegna þungra á­rása hafi ekki enn tekist að komast að svæðinu til að sann­reyna það. Ekki hefur verið hægt að fá sannanir fyrir því frá öðrum leiðum.

Dan Keszeta frá bresku rann­sóknar­stofnuninni Rusi hefur varað við því að á­ætla að um efna­á­rás sé að ræða. Margt annað komi til greina sem kunni að hafa haft svipuð á­hrif. Frá­sagnir segja að úkraínskir her­menn af svæðinu hafi fundið fyrir ein­kennum á borð við öndunar­erfið­leika, sem gæti skýrst af öðrum þáttum sam­kvæmt Keszeta.

Breskur her­maður sem hefur barist í Maríu­pol í 48 daga sagði frá því að her­sveit hans hafi þurft að gefast upp fyrir rúss­neska hernum þegar þau urðu uppi­skroppa með mat og skot­föng. Þau hafi ekki geta fyllt á birgðir vegna stans­lausra á­rása. Hermenn sveitarinnar eru nú stríðs­fangar Rússa.