„Þetta fór ró­lega af stað í júní en júlí og ágúst voru vonum framar,“ segir Kristófer Oli­vers­son, for­maður FHG, Fyrir­tækja í hótel- og gisti­þjónustu, um ganginn í greininni í sumar.

Komið hefur fram að um­svif ferða­þjónustunnar í ár eru á pari við árið 2019 sem þó var lakara en me­t­árið 2018. Það var árið 2019 sem rekstur WOW air komst í þrot.

Kristófer segir að haustið líti á­gæt­lega út. Innan greinarinnar hafi verið á­hyggjur af hækkandi orku­verði og öðrum erfið­leikum á okkar helstu markaðs­svæðum. „En veru­leikinn fram að þessu er í raun og veru annar. Kannski af því að það er svona mikill upp­safnaður ferða­vilji,“ segir hann.

Að sögn Kristófers hafa Bretar verið að sækja í sig veðrið í flugi til Ís­lands. „Þeir eru okkar bestu vetrar­kúnnar á­samt Banda­ríkja­mönnum,“ bendir hann á.

Kín­verjar og ferða­langar frá öðrum löndum Asíu, sem hafa einnig verið sterkur hópur í ferða­þjónustunni að vetrar­lagi, hafa hins vegar enn ekki byrjað að skila sér aftur eftir Co­vid. Kristófer segir það meðal annars vera vegna lokunar leiða yfir Rúss­landi sem gerir flug­leiðir lengri og einnig vegna strangrar að­ferða­fræði kín­verskra stjórn­valda við að hefta út­breiðslu kóróna­veirunnar.

Kristófer minnir á að hægt sé að horfa á málin frá mörgum sjónar­hornum og vitnar til orða Ás­geirs Jóns­sonar seðla­banka­stjóra á Ferða­þjónustu­deginum á mið­viku­daginn. „Ás­geir sagði að við ættum að muna að horfa til þess að á Ís­landi sé skatt­kerfið þannig að stór hluti af því byggi á neyslu­sköttum. Þannig að um leið og ferða­mennirnir eru lentir eru þeir farnir að borga skatta á fullu og skila svo miklu inn í sam­fé­lagið.“

Bát­fyllir af ferða­mönnum lagði úr höfn í Reykja­víkur­höfn í gær á leið í hvala­skoðun á Faxa­flóa.
Fréttablaðið/Anton Brink

Mark­mið síns eigin fyrir­tækis, Center­hot­els, kveður Kristófer vera að endur­heimta fyrri styrk eftir gríðar­leg á­föll Co­vid-tíma­bilsins með tveggja ára tekju­leysi. Hann kveður verð­bólgu og háa vexti vera helsta vanda­mál hótel­geirans um þessar mundir.

„Fjár­magns­kostnaðurinn tekur alveg svaka­lega í,“ segir Kristófer. Ó­vissu­þættirnir séu enn margir. „En ef flugé­lögin meta það sem svo að Ís­land sé góður á­fanga­staður þá skilar það sér. Og maður getur ekki verið annað en þakk­látur fyrir hversu miklu betur hefur ræst úr þessu en maður þorði að vona.“