„Ég fagna þessari niður­stöðu og gott að sjá að dóms­kerfið stendur í lappirnar þegar ein­staklingar standa and­spænis fjár­mála­stofnunum. Það getur ekki verið eðli­legt að bankar haldi við á­byrgðum og fram­vísi eftir hentug­leika,“ segir fjöl­miðla­maðurinn Björn Ingi Hrafns­son í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hann var í dag sýknaður í Héraðs­dómi Reykja­víkur á­samt Arnari Ægis­syni og Steini Kára Ragnars­syni. Ís­lands­banki krafði þá félaga um að þeir greiddu bankanum tíu milljónir auk dráttar­vaxta vegna á­byrgðar þeirra á skuldum DV ehf. við bankann.

Þre­menningarnir undir­rituðu yfir­lýsingu árið 2015 um sjálf­skuldar­á­byrgð á há­marki tíu milljónir hjá Ís­lands­banka auk verð­bóta og vaxta og annars kostnaðar sem DV ehf. hafði gengist undir eða myndi gangast undir hjá bankanum. Sama dag felldi Ís­lands­banki niður eldri á­byrgðir fyrir skuldum og fjár­skuld­bindingum DV ehf.

Tveimur árum síðar þegar út­gáfu­réttur DV ehf. var seldur átti meðal annars að greiða fyrir kaupin með yfir­töku skuldar DV við Ís­lands­banka, sem þá nam 18 milljónum. Steinn Kári lýsti því yfir að búið væri að greiða skuld DV ehf. við Ís­lands­banka en á­byrgðin væri enn lifandi hjá bankanum.

Umrædd skuld löngu greidd

„Um­rædd skuld var löngu greidd og bankinn tók hvorki til nokkurra varna né bar endur­greiðslu undir okkur. Svo ætlaði hann að láta okkur bera allt tjónið sem var ber­sýni­lega ó­rétt­látt eins og dómarinn fellst á,“ segir Björn Ingi enn fremur.

Ís­lands­banki sagði að enn sæti eftir húsa­leigu­á­byrgð upp á 1,5 milljónir og því væri ekki hægt að fella á­byrgðirnar niður. Í dómi Héraðs­dóms Reykja­ness segir að ekki sé á­greiningur um að Steinn Kári hafi sagt á­byrgðinni upp.

Ís­lands­banka ber að greiða þre­menningunum hverjum 600.000 krónur í máls­kostnað.