„Það er gott að finna þennan stuðning við ríkisstjórnina. Það er í takt við það sem ég hef fundið úti í samfélaginu. Þrátt fyrir að tímarnir séu erfiðir hef ég fundið stuðning bæði við aðgerðir okkar í heilbrigðismálum og efnahagsmálum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Samkvæmt nýrri könnun sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið reynast tæplega 60 prósent þeirra sem taka afstöðu styðja ríkisstjórnina. Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna þriggja er hins vegar tæp 43 prósent.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist áfram stærsti flokkurinn og er nú með 22,4 prósent sem er rúmlega tveimur prósentustigum meira en í síðustu könnun sem var gerð í byrjun mars.
Samfylkingin sem fagnaði tuttugu ára afmæli í gær er næststærsti flokkurinn og mælist með 15 prósenta fylgi. Flokkurinn var með rúm 17 prósent í síðustu könnun.
„Ég er auðvitað ánægður með að við séum að staðfesta okkur sem næststærsti flokkur landsins. Enda er Samfylkingin mikilvægur flokkur þegar við stöndum frammi fyrir kreppu þar sem þarf að verja almenning,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Varðandi aukinn stuðning við ríkisstjórnina segir Logi að það sé eðlilegt að þegar fólk lendi í sameiginlegu áfalli þjappi það sér um stjórnvöld.
„Auðvitað viljum við öll að stjórnvöld standi sig vel. En þetta er auðvitað langtum minni stuðningur en við erum að sjá í nágrannalöndunum,“ segir Logi.
Athygli vekur að 54 prósent þeirra sem segjast ætla að kjósa Viðreisn styðja ríkisstjórnina. Það sama gerir tæpur þriðjungur stuðningsfólks Samfylkingarinnar, 27 prósent Pírata og 26 prósent kjósenda Miðflokksins.
Hlutfallslega fleiri konur styðja ríkisstjórnina en karlar. Þannig segjast 63 prósent kvenna styðja stjórnina en 57 prósent karla. Lítill munur er hins vegar á stuðningi milli íbúa höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar.
Könnunin sem var send á könnunarhóp Zenter rannsókna var framkvæmd 1. til 4. maí. Í úrtaki voru 2.300 manns 18 ára og eldri en svarhlutfall var 53 prósent. Gögnin voru vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu.

Vinstri græn bæta við sig
Vinstri græn bæta við sig þremur prósentustigum og mælast nú með 11,8 prósent. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist hafa almennan fyrirvara á könnunum. „Auðvitað er ánægjulegt að fá meiri stuðning en þó með þeim fyrirvara að maður veit að þetta getur sveiflast hratt fram og til baka,“ segir hún.
Píratar sem eru þriðji stærsti flokkurinn samkvæmt könnuninni og mælast nú með 11,9 prósent, voru með 12,7 prósent í síðustu könnun.
Viðreisn er með 9,8 prósent sem er einu og hálfu prósentustigi minna en í mars. Miðflokkurinn missir 0,3 prósentustig og mælist nú með 8,6 prósent. Framsóknarflokkurinn mælist nú með 8,4 prósent en var með 8,2 prósent í mars.
Bæði Sósíalistaflokkurinn og Flokkur fólksins mælast undir fimm prósenta markinu. Miðað við skekkjumörk gætu þeir þó báðir farið yfir fimm prósentin.