“Svæðið er ekki fyrir lítil börn, þau eru viðkvæm og nær jörðinni en þeir sem eldri eru og því útsett fyrir skaðlegum lofttegundum,” segir í tilkynningu lögreglunnar á Suðurnesjum um ferðir á gossvæðið á Reykjanesskaga.

Enn fremur segir að þeir sem klæði sig ekki vel hafa ekkert inn á svæðið að gera. Af gefnu tilefni minnir lögreglan á að taka helst ekki hunda með sér að gosstöðvunum þar sem þeir eru útsettari fyrir mengun vegna gass þar sem þeir eru nær jörðu. Einnig getur flúor leynst í pollum sem hundar drekka úr.

Gossvæðið er hættulegt vegna lélegra loftgæða og hefur gangan þangað reynst mörgum erfið.

Vaktað frá hádegi

Í dag verður gossvæðið vaktað af lögreglu og björgunarsveitum frá klukkan tólf til miðnættis. Lokað verður inn á svæðið klukkan níu í kvöld og hefst rýming tveimur tímum fyrr eða kl.23.

Lögregla getur þó án fyrirvara lokað fyrir alla umferð inn að gosstöðvunum.

Gasmengun

Gasmengun berst líklega yfir vestanverðan Reykjanesskaga, það er yfir svæðið frá Vogum og vestur að Höfnum. Á þessu svæði eru líkur á að loftgæði verði óholl fyrir viðkvæma. Austan og Suðaustan 5-10 m/s seint í kvöld. Lítilsháttar rigning eða slydda öðru hvoru. Hitinn verður 0 til 5 stig. Fólk er hvatt til að fylgjast með loftgæðamælingum á vefnum loftgaedi.is

Ítrekað er í tilkynningu lögreglu að bannað sé að leggja ökutækjum á og við Suðurstrandarveg. Leggja skuli bílum á skipulögðum stæðum neðan þjóðvegar.