Opnað verður fyrir för að gosstöðvum klukkan 10 í dag. Viðbragðsaðilar ráðleggja göngufólki að hafa brodda meðferðis en flughált er á gönguleiðinni að gosstöðvum.

Í nótt og á morgun er útlit fyrir norðan 8-15 m/s í nágrenni eldstöðvarinnar og mengun leggur þá til suðurs frá gosinu. Á þriðjudag er áfram útlit fyrir norðlæga átt, 5-10 m/s en um kvöldið snýst í hægari vestlæga átt. Ekki er búist við að mengun fari yfir heilsuverndarmörk í byggðum í nágrenni gosstöðvanna.

Viðbragðsaðilar funduðu í morgunsárið og tóku ákvörðun um að opna Suðurstrandarveg og gönguleið að gosstöðvunum í Geldingadölum kl. 10:00.

„Veður á svæðinu er þeim hætti að strekkingsvindur er af norðri og flughált á gönguleiðum að gosstöðvunum. Fólki er sem hyggst fara að gosstöðvunum í dag, er eindregið ráðlagt að búa sig vel og hafa brodda meðferðis,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Mikill fjöldi fólks lagði leið sína að gos­stöðvunum í Geldinga­dölum á Reykja­nesi í gær, enda veður með besta móti lengst af.

Bogi Adolfs­son, for­maður björgunar­sveitarinnar Þor­bjarnar í Grinda­vík, sagði að að­sóknin hefði verið með ó­líkindum og lík­lega ekki fleiri komið á einum degi síðan gosið hófst þann 19. mars síðast­liðinn. Að­sóknin var slík að lög­reglan á Suður­nesjum greip til þess ráðs að loka Suður­strandar­vegi tíma­bundið vegna mikils fjölda bif­reiða staðnum.

Veðurskilyrði voru góð í gær.
Mynd/Sigtryggur Ari