Eldgosinu í Meradölum virðist vera lokið, enda vika síðan hraun rann síðast í gosinu. Enn eru þó nokkrir mánuðir þar til goslokum verður formlega lýst yfir.

Samkvæmt Facebook-færslu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands eru engar vísbendingar um að gosið muni hefjast að nýju. Ef gosinu er í raun lokið er um að ræða skammlífasta hraungos á Íslandi frá lokagosi Kröfluelda í september 1984.

Alls hafi gosið staðið yfir í átján daga, hraunið hafi aðeins þakið 1,2 ferkílómetra og aðallega farið yfir hraun úr gosinu í Geldingadölum í fyrra. Alls er talið að rúmmál gossins nemi 11 milljón rúmmetrum. Hraun síðasta goss hafi hins vegar þakið 4,8 ferkílómetra og verið 150 milljón rúmmetrar að rúmmáli.