Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, segir eldgosið í Tonga-eyjaklasanum í Kyrrahafi þann 15. janúar síðastliðinn að öllum líkindum kraftmesta gos 21. aldarinnar, hingað til.

Þetta kemur fram í svari Magnúsar Tuma á Vísindavefnum.

Þar segir Magnús Tumi að samkvæmt bráðabirgðamati sérfræðinga reis gosmökkurinn í um 30 kílómetra hæð og gervitungl sýna að hann varð mjög stór á stuttum tíma eða um 400 kílómetra breiður og 600 kílómetra langur.

Gosvirknin hófst í desember

Samkvæmt Magnúsi Tuma hófst gosvirknin á svæðinu í desember síðastliðinn og þann 13. janúar hafi orðið heilmikið gos þar sem mökkurinn reis í um 20 kílómetra hæð. Gosið, 15. janúar, hafi þó verið mun stærra.

Ekki sé ljóst hvort gosið 15. janúar hafi verið hámark umbrotanna eða hvort að meira eigi eftir að koma. Magnús Tumi segir tímann eiga eftir að leiða það í ljós.

„En hvernig sem þessu er snúið eru allar líkur á að þarna hafi orðið öflugasta sprengigos á jörðinni frá því það gaus í Pinatubo á Filippseyjum fyrir 30 árum,“ segir Magnús Tumi jafnframt í svari sínu á Vísindavefnum.

Myndin til vinstri er tekin 2. janúar og sú til hægri 15. janúar, sama dag og eldgosið átti sér stað.
Fréttablaðið/EPA

Ferðaðist umhverfis hnöttinn

Magnús Tumi segir gosið hafa búið til öfluga hljóðbylgju sem heyrðist meðal annars í Alaska. Þá sýni mælingar að þrýstibylgjan hafi ferðast umhverfis hnöttinn, sem er ekki algengt.

Til að gefa mynd af stærð gossins setur Magnús Tumi það í samhengi við Grímsvatnagosið árið 2011, þar hafi mökkurinn náð í um 20 kílómetra hæð sem samsvari kvikuflæði sem nemi 20 til 50 þúsund tonnum á sekúndu.

Að sögn Magnúsar Tuma var gosið í Hunga Tonga mun öflugra.