Goshver sem gýs sjóðandi vatni allt að 25 metra upp í loftið opnaðist í garði fólks í Biskupstungum. Hverinn gýs á rúmlega korters fresti, Hannes Sigurðsson, íbúi á Reykjavöllum, segir í samtali við Fréttablaðið að það hafi byrjað að gjósa á hádegi á þriðjudaginn. „Nákvæmlega 12:05, ég var búinn að vera vinna þarna og var kominn heim, þá sagði dóttir mín að það væri byrjað að gjósa,“ segir Hannes. „Ég hélt að þetta væri eitthvað rugl.“

Hann sjálfur varð næstum fyrir vatninu þegar hann fór út með myndavél. „Ég bara rétt slapp, datt á höfuðið.“

Hverinn er staðsettur í gamalli borholu. „Hún gaus aldrei. Hún hefur verið alveg köld í meira en tuttugu ár. Ég var svo að moka skurð og kom við holuna, þá hefur þetta byrjað. Það hefur eitthvað gerst ofan í jörðinni.“

Borholan er um hálfrar aldar gömul og hefur verið köld í meira en tuttugu ár.
Mynd/Hannes Sigurðsson

Þegar Fréttablaðið náði tali af Hannesi voru sérfræðingar frá Íslenskum orkurannsóknum að skoða hverinn. „Þeir eru hérna úti núna að skoða þetta.“

Strókurinn er mishár, hæst fer hann í um 25 metra. „Ég nota tré til að miða við. Ætli þau séu ekki 8 til 9 metra há, þetta hefur verið tvö tré á hæð og einn þriðji til viðbótar. Það fer eftir hvað það er langt á milli þeirra.“

Hann og eiginkona hans íhuga nú að gerast ferðaþjónustubændur. „Við erum að spá í að hafa þetta sem goshver. Þetta var ekki planið. Við þurfum að finna út hvort það sé ekki raunhæft, ég vona það.“