Gos gæti hafist á næstu klukkustundum eða næstu dögum. Enn er mikil spenna á jarðskjálftasvæðinu og að samhliða því gætu orðið stærri jarðskjálfar. Frá þessu var greint á blaðamannafundi Almannavarna og Veðurstofunnar í dag í Katrínartúni. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, sagði á blaðamannafundinum í dag að enginn væri í hættu og byggð væri ekki í hættu. Víðir sagði að þau myndu nota SMS til að láta íbúa vita af mögulegri hættu.

Gosið yrði svokallað hraungos og ekki sprengigos og þrátt fyrir að það yrði sett á rautt viðbúnaðarstig á flug þá myndi það líklega ekki hafa áhrif á alþjóðaflug eins og áður.

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruárvöktunar hjá Veðurstofunni, sagði að það sem gerðist í dag um klukkan 14:20 nærri Litla-Hrút var að virkni fór að ágerast. Litlit skjálftar urðu stórir sem verður eins og einhvers konar óróapuls.

Hún segir að í framhaldinu hafi þyrla Landhelgisgæslunnar farið í loftið til að meta aðstæður en að þau hafi ekki séð neitt. Hún segir að þetta geti verið til marks um ýmislegt en að þau þurfi að rýna betur í sín gögn.

Þurfa að rýna betur í gögn

Upptökin eru við Litla Hrút og er svæðið eins og fram hefur komið suður af Keili. Svæðið sem um ræðir er þeirra á milli.

„Við þurfum að rúna betur í gögnin til að átta okkur á hvað sé að gerast en sennilegt að kvika sé að færast nær yfirborði,“ sagði Kristín á blaðamannafundi sem fór fram í Katrínartúni í dag.

Von er á annarri gervihnattatunglamynd í kvöld en fram kom í máli sérfræðings Veðurstofunnar að kvika sé að brjóta sér leið í gegnum skorpuna.

Víðir sagði að mikilvægt væri að hafa í huga að þetta væri í samræmi við það sem Veðurstofan hefur fjallað um í tengingu við hraunstraum

Fólk ekki í hættu

„Þetta eru engar hamfarir og það er enginn í hættu, það er engin byggð í hættu. Fólk getur haldið áfram með líf sitt,“ sagði Víðir Reynisson á blaðamannafundinum.

Hann sagði að hann vildi beina því til fólks sem er leið á svæðið að vísindamenn þurfi frið og að aðstæður eru þannig að það er mjög blautt og fólk getur fljótt lent í vandræðum.

Hann bað fólk að slaka á og sagði ekkert að sjá í augnablikinu á svæðinu.

Tímaramminn er óljós sagði Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur, á fudninum, en hann sagði eldgos geta hafist á næstu klukkustundum eða næstu dögum. Kristinn sagði að kvikan væri nálægt yfirborði og það þyrfti að fylgjast vel með næstu klukkustundirnar.

Ef það verður gos þá verða birtar spár um gasmengun samhliða þeim fréttum. Kristín sagði að það væri tekið tillit til þess hvert vindar blása en sagði ekki miklar líkur á því að um hættulega gasmengun yrði að ræða. En hún gæti verið óþægileg í nokkra daga.

Þau sögðu að á meðan jarðskjálftahrinan og þessar kvikuhreyfingar séu í gangi þá safnist saman spenna og aukist líkur á stærri jarðskjálftum á svæðinu. Þeir gætu orðið á milli 6 og 6,5.

Víðir Reynisson sagði að raflínur væru talsvert langt frá en að það væri verið að fylgjast með mikilvægum innviðum sem að gætu orðið á leið kvikunnar.