Google liggur nú niðri víðs vegar um heiminn en ekki er hægt að komast inn á ákveðin forrit Google, til að mynda Google Drive og Gmail. Þá komast notendur ekki inn á myndbandsveituna YouTube að svo stöddu.

Notendur hér á landi eiga nú í vandræðum með að komast inn á síðurnar en þar að auki hefur verið greint frá vandamálinu í Bretlandi og annars staðar í Evrópu.

Notendur komast meðal annars ekki inn á YouTube.
Mynd/Skjáskot

Google hefur ekki enn tjáð sig um málið en síðurnar hrundu skömmu fyrir hádegi að íslenskum tíma.

Samkvæmt heimasíðunni Downdetector eiga notendur nú ýmist í erfiðleikum með að komast inn á síðurnar eða að skrá sig inn á aðganga sína.

Uppfært 12:50:

Síðurnar sem lágu niðri virðast nú vera komnar í lag en síðurnar lágu niðri í rúman hálftíma. Ekki liggur fyrir að svo stöddu af hverju síðurnar hrundu.