Öll dönsk tónlist verður fjarlægð af dönsku útgáfunni af Youtube fyrir miðnætti í dag.

Ástæðan er sú að Google, sem á Youtube og Koda sem heldur utan um réttindi tónskálda og lagahöfunda í Danmörku hafa ekki komist að samkomulagi um notkun á danskri tónlist á miðlinum.

Vegna þessa er nú þegar byrjað að fjarlægja danska tónlist af YouTube og frá miðnætti í kvöld verður ekki hægt að nálgast neina danska tónlist.

Þetta staðfesti Dan Chalmers, forstöðumaður YouTube Music í Evrópu við danska ríkisútvarpið DR.

„Við erum nú þegar byrjuð að fjarlægja tónlistina vegna þess að við virðum að sjálfsögðu réttindi listamanna og lagahöfunda. Við höfum reynt að semja við Koda en samningurinn sem Koda krefst er ekki sanngjarn. Ég vona að við getum fundið lausn á þessu vandamáli eins fljótt og auðið er," segir Chalmers.

STEF með gildandi samning við Youtube

Hrafnkell Pálmarsson, verkefnastjóri miðla og erlendrar innheimtu hjá STEF, segir að STEF sé með gildandi samning við Youtube og þar séu engar viðræður í gangi.

„Við gerum samninga við aðila eins og Youtube og Spotify og þess háttar á notkun á íslenskri tónlist. Við erum með gildandi samning við Youtube. Þeir eru sambærilegir því sem hefur verið hjá nágrannalöndum okkar."

Hrafnkell segir að ef enginn samningur er til staðar á milli lands eða útgefanda sem sér um tónlistina við miðilinn sé hún eðli málsins samkvæmt fjarlægð.

„Ef samningar nást ekki þá er tónlistin fjarlægð. Lengi vel var t.d. þýsk tónlist ekki aðgengileg á Youtube vegna þess að það náðust ekki samningar, það er að vísu langt síðan en svona mál hafa komið upp."

Hvorki Kim Larsen né Medina á Youtube á morgun

Unnið hefur verið að nýjum samningi um notkun á danskri tónlist frá því að gildandi samningur féll úr gildi í apríl síðastliðinn. Þá er verið að vinna í sameiginlegum norrænum samning fyrir Finnland, Noreg og Danmörku sem kemur í stað einstakra samninga. Danir fengu tímabundna framlengingu á samning sínum í apríl sem rennur út á morgun. Þess vegna verður öll dönsk tónlist ótiltæk á Youtube frá miðnætti.

Kim Larsen er einn ástsælasti tónlistarmaður Danmerkur.
Fréttblaðið/ Getty images.
Hið sívinsæla lag Barbie girl með Aqua verður ekki á Youtube á morgun.
Fréttblaðið/ Getty images.