Eftir langar umræður, spár og getgátur um hvað Google ætlaði sér að kynna í ávarpi sínu á tölvuleikjahönnuðaráðstefnunni GDC í vikunni sviptu þeir Sundar Pichai forstjóri og Phil Harrison, yfirmaður nýja leikjaverkefnisins, hulunni af Stadia. Þetta nýjasta nýtt frá Google er ekki leikjatölva, eins og ýmsir höfðu spáð, heldur stafræn þjónusta.

Google-menn sögðu frá því að með því að nýta það mikla afl sem finna má í þúsundum gagnavera fyrirtækisins víða um heim geri Stadia hverjum sem er kleift að spila nýjustu og stærstu leikina á hvaða tæki sem er. Hvort sem um er að ræða 200.000 króna borðtölvu, gömlu fermingarfartölvuna eða jafnvel símann þinn. Ákveðin þumalputtaregla er að ef tölvan þín eða síminn getur keyrt YouTube á tækið að geta keyrt Stadia.

Vinnslan mun nefnilega öll fara fram í gagnaverunum og leiknum verður síðan streymt í símann þinn, tölvuna eða sjónvarpið. Þannig mun maður ekki þurfa að bíða tímunum saman eftir því að hlaða leiknum niður heldur mun maður, samkvæmt Google, geta einfaldlega byrjað hvenær sem er.

En þrátt fyrir að Stadia sé spennandi og hugmyndin um að maður geti spilað stóra og þunga leiki á hvaða tæki sem er er mörgum spurningum enn ósvarað.

Ekki var farið út í hvernig neytendur verða rukkaðir. Erlendir tækni- og leikjamiðlar velta því fyrir sér hvort módelið verði svipað og Netflix og X-Box Game Pass, þar sem neytandinn borgar mánaðarlega fyrir áskrift að efninu, hvort neytendur muni þurfa að borga fyrir leikina sjálfa en enga áskrift að þjónustunni eða jafnvel hvort tveggja.

Þar sem Stadia er vefþjónusta er hraðrar og öruggrar nettengingar vitanlega krafist, enda ekkert grín að streyma tölvuleikjum í 4K-upplausn og sextíu römmum á sekúndu eins og Google lofar. En tölvuleikjaunnendur víða um heim hafa lýst efasemdum sínum um að upplifunin af streymdum leikjum verði fullnægjandi þar sem svörunartíminn gæti lengst á milli þess að spilari ýtir á takka og leikurinn svarar.

Google gerði beta-prufu á tækninni undir heitinu Project Stream á síðasta ári. Gafst þá spilurum tækifæri til að prófa Assassin’s Creed Odyssey. Viðbrögðin voru almennt góð en vissulega þótti upplifunin verri eftir því sem nettengingin varð hægari. Opna á Stadia í ár og var tilkynnt um að næsti leikur í DOOM-seríunni verði í boði á þjónustunni. Þá hefur Google opnað eigið leikjastúdíó.

Hugmyndin um að streyma leikjum er ekki ný af nálinni. Sprotafyrirtækið Onlive setti slíka þjónustu í loftið á síðasta áratug, en verkefnið gekk ekki upp. Sony heldur úti PlayStation Now og Microsoft er að feta sig áfram með þjónustu að nafni xCloud. Munurinn á Onlive og Sony annars vegar og Microsoft og Google hins vegar er þó sá að síðarnefndu fyrirtækin tvö eru mun betur í stakk búin til þess að bjóða upp á þjónustu af þessu tagi enda nú þegar með fjölda gagnavera um heim allan.

Fyrrnefndur Harrison sagði í viðtali við Eurogamer að tímasetningin skipti miklu máli. Netið hefði þróast mikið á undanförnum árum. Í þokkabót hefði Google þá innviði sem þarf fyrir verkefni á borð við Stadia.