Maðurinn sem leitað hefur verið að í Stafafellsfjöllum frá því í gærkvöldi er fundinn heill á húfi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.

„Við fengum vísbendingu frá smölum í morgun sem höfðu séð til hans og þar með var hann fundinn,“ segir Friðrik Jónas Friðriksson, stjórnandi aðgerða í Höfn, í samtali við Fréttablaðið.

Maðurinn fannst inni í Hellisskógaheiði við göngubrúna yfir í Eskifell, sirka fimm kílómetrum frá bílnum. Honum líður vel að sögn björgunarsveitarmanna en hann var vel búinn.

„Honum líður vel. Hann hélt sér í nótt og kom svo niður þegar fór að birta í morgun. Hann var með tjald með sér og var virkilega vel búinn.“

Maðurinn er nú á leið til byggða með björgnarsveitarmönnum. Á annað hundrað leitarmanna voru við leit og fleiri á leið á vettvang til aðstoðar.  Þeim hefur nú verið snúið frá og eru væntanlega á heimleið í dag.