„Það kom kannski ekki fram mikið sem við höfðum ekki heyrt áður en nú eru sögur sjómannanna skjalfestar,“ segir Bergvin Eyþórsson, varaformaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, í samtali við Fréttablaðið.
Sjópróf fór fram fyrir Héraðsdómi Vestfjarða í dag vegna hópsmits sem kom upp um borð á togaranum Júlíusi Geirmundssyni í októbermánuði, en 22 af 25 áhafnarmeðlimum smituðust af kórónuveirunni. Veikindin komu upp strax á öðrum degi en þrátt fyrir það var ákveðið að halda túrnum áfram.
Höfðu ekki stjórn
„Það er staðfest að okkar menn höfðu ekki völd yfir því sem var að gerast,“ segir Bergvin sem segist hafa vonast til þess að skipstjórinn og fulltrúar útgerðar skipsins myndu tjá sig í dag.
„Við vildum heyra báðar hliðar en þeir voru með lögmenn sem spurðu strákana okkar. Það er refsivert að segja ósatt fyrir dómi þannig að við göngum út frá því að þeir hafi sagt satt og rétt frá. Í stórum dráttum sögðu þeir sömu söguna, en frá sinni upplifun.“
Ekki verkjalyf fyrir alla
Skipverjar hafa skelfilegu ástandi um borð í skipinu og borið að þeir sem voru veikir hafi þurft að halda vinnu sinni áfram uns þeir gátu ekki meir. Þá hafa þeir greint frá því að lyfjabirgðir hafi ekki verið nægar um borð, aðeins þeir veikustu hafi fengið verkjalyf því ekki var til nóg handa öllum.
Hraðfrystihúsið Gunnvör, sem á togarann, hefur beðið alla skipverjana, sem voru um borð afsökunar á málinu.
Bætur verði sóttar
Bergvin bendir á að lögreglurannsókn sé nú í gangi og hún muni leiða í ljós hvort eitthvað saknæmt hafi átt sér stað.
„Við munum nota þessar lýsingar til að meta hvort þurfi að breyta reglugerð eða lögum fyrir sjómenn,“ segir hann og bætir við að lokum að bætur verði sóttar ef sýnt er fram á að einhver hafi orðið fyrir tjóni. „Við erum búin að vera að standa í þessu máli til þess að tryggja réttindi þeirra.“