„Það kom kannski ekki fram mikið sem við höfðum ekki heyrt áður en nú eru sögur sjó­mannanna skjal­festar,“ segir Berg­vin Ey­þórs­son, vara­for­maður Verka­lýðs­fé­lags Vest­firðinga, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Sjó­próf fór fram fyrir Héraðs­dómi Vest­fjarða í dag vegna hóp­smits sem kom upp um borð á togaranum Júlíusi Geir­munds­syni í októ­ber­mánuði, en 22 af 25 á­hafnar­með­limum smituðust af kórónu­veirunni. Veikindin komu upp strax á öðrum degi en þrátt fyrir það var á­kveðið að halda túrnum á­fram.

Höfðu ekki stjórn

„Það er stað­fest að okkar menn höfðu ekki völd yfir því sem var að gerast,“ segir Berg­vin sem segist hafa vonast til þess að skip­stjórinn og full­trúar út­gerðar skipsins myndu tjá sig í dag.

„Við vildum heyra báðar hliðar en þeir voru með lög­menn sem spurðu strákana okkar. Það er refsi­vert að segja ó­satt fyrir dómi þannig að við göngum út frá því að þeir hafi sagt satt og rétt frá. Í stórum dráttum sögðu þeir sömu söguna, en frá sinni upp­lifun.“

Ekki verkjalyf fyrir alla

Skip­verjar hafa skelfi­legu á­standi um borð í skipinu og borið að þeir sem voru veikir hafi þurft að halda vinnu sinni á­fram uns þeir gátu ekki meir. Þá hafa þeir greint frá því að lyfja­birgðir hafi ekki verið nægar um borð, að­eins þeir veikustu hafi fengið verkja­lyf því ekki var til nóg handa öllum.

Hrað­frysti­húsið Gunn­vör, sem á togarann, hefur beðið alla skip­verjana, sem voru um borð af­sökunar á málinu.

Bætur verði sóttar

Berg­vin bendir á að lög­reglu­rann­sókn sé nú í gangi og hún muni leiða í ljós hvort eitt­hvað sak­næmt hafi átt sér stað.

„Við munum nota þessar lýsingar til að meta hvort þurfi að breyta reglu­gerð eða lögum fyrir sjó­menn,“ segir hann og bætir við að lokum að bætur verði sóttar ef sýnt er fram á að ein­hver hafi orðið fyrir tjóni. „Við erum búin að vera að standa í þessu máli til þess að tryggja réttindi þeirra.“